Fara fram á gjaldþrotaskipti á Valitor

Sunshine press production var rekstrarfélag uppljóstrunarvefsins Wikileaks. Félagið og Datacell …
Sunshine press production var rekstrarfélag uppljóstrunarvefsins Wikileaks. Félagið og Datacell fara nú fram á gjaldþrotskipti á greiðslukortafyrirtækinu Valitor vegna skaðbótarkröfu að upphæð 10,3 milljarðar. AFP

Fyrirtækin Datacell og Sunshine Press Production, rekstrarfélag uppljóstrunarvefsins Wikileaks, hafa farið fram á gjaldþrotaskipti yfir greiðslukortafyrirtækinu Valitor vegna ógreiddrar skaðabótakröfu. Ýtrasta krafa fyrirtækjanna hljóðar upp á 10,3 milljarða, en þar sem eigið fé Valitor er um 7 milljarðar ákváðu fyrirtækin að fara þessa leið. 

Vísir.is fjallaði um málið í dag, en Sveinn Andri Sveinsson, lögfræðingur fyrirtækjanna tveggja, staðfestir við mbl.is að beiðnin hafi verið lögð fram í dag. 

Datacell sá um rekstur greiðslugáttar fyrir Sunshine Press Production, en Valitor lokaði svo gáttinni 8. júlí árið 2011 án fyrirvara. Á sama tíma var Wikileaks mikið í sviðsljósinu vegna uppljóstrana sem félagið birti og streymdu styrktargreiðslur inn. Fyrirtækin fengu sérfræðinga til að reikna út mögulegt tjón vegna lokunarinnar og var mat þeirra að tjónið væri á bilinu 1,5 milljarðar til 8 milljarða. 

Samkvæmt Sveini Andra bætist ofan á þá upphæð 1,6 milljarðar í dráttavexti og 400 milljónir í samningsvexti. Þá sé lögmannsþóknun um 200 milljónir. 

Hann segir að málið sé höfðað á grundvelli 5. töluliðar, 2. málsgreinar 65. greinar laga um gjaldþrotaskipti, en fyrir nokkrum árum var þar bætt við að kröfuhafi sem hefði fengið sérstaka greiðsluáskorun hefði þrjár vikur til að svara hvort hann ætlaði að borga eða væri greiðsluhæfur. Sveinn Andri segist byggja gjaldþrotabeiðnina á því að svör Valitor hafi hingað til verið ófullnægjandi og að eigið fé félagsins sé um 7 milljarðar sem sé ekki fullnægjandi fyrir ýtrustu kröfu.

Í frétt Vísis er haft eftir Sigurði G. Guðjónssyni, lögmanni Valitor, að engin krafa sem mark sé takandi á hafi borist Valitor og því hafi félagið ekki viljað semja, þótt dómur hafi fallið um að lokun greiðslugáttarinnar hafi verið ólögmæt.

Bendir Sigurður á að samkvæmt ársreikningum Datacell og Sunshine Press Productions á því tímabili sem Datacell var í viðskiptum við Valitor sé ekki að sjá að félagið hafi haft neinar tekjur. Segir hann merkilegt að félag sem aldrei hafi haft tekjur geti orðið fyrir tjóni sem nemur milljörðum.

Þar segir jafnframt að Sigurjón Þ. Árnason fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, hafi framkvæmt matið á mögulegu tjóni. Þess má geta að Sigurður G. var lögmaður Sigurjóns í markaðsmisnotkunarmáli sérstaks saksóknara gegn Sigurjóni og öðrum starfsmönnum Landsbankans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert