Óttast ekki framtíð skops í fattlausum heimi

Mynd Hugleiks sem hann birti með erindi sínu á málþinginu. …
Mynd Hugleiks sem hann birti með erindi sínu á málþinginu. Hann segir stundum rétt að segja ranga hluti ef það er gert á réttan hátt. Hugleikur Dagsson

Ekki er hægt að setja reglur um grín en hægt er að misnota húmor með hatri. Það er hins vegar aldrei fyndið. Þetta sagði Hugleikur Dagsson, skopmyndateiknari, á málþingi um afleiðingar hryðjuverkaárásarinnar í París í dag. Hann óttast ekki um framtíð skopsins í fattlausum heimi.

Hugleikur var frummælandi á málþingi menningarfræði í Háskóla Íslands í dag ásamt Gauta Kristmannssyni, prófessor í þýðingafræði, og Kristínu Loftsdóttur, prófessor í mannfræði. Yfirskrift málþingsins var „Framtíð skops í fjölmenningarsamfélagi: langtímaáhrif morðanna á ritstjórn Charlie Hebdo.

Gauti ræddi meðal annars um það hvenær fyndni væri fyndin. Húmor gæti meðal annars birst í því þegar tabú væru rofin, þegar menn fengju fordóma sína staðfesta á óvæntan hátt eins og í ljóskubröndurum og bröndurum á kostnað valdamanna og stundum snerist húmor um að staðfesta eigin yfirburði yfir öðrum.

Festi óvinamyndina í sessi

Skop snýst oft um völd, að því er kom fram í máli Gauta. Satíra gæti þannig komi að neðan og upp eins og þegar alþýða manna gerði grín að yfirvaldinu. Hún gæti einnig komið að ofan og niður þar sem valdahópar staðfestu eigin yfirburði með gríni á kostnað hinna veiku. Síðara formið tæki oft á sig mynd hatursskops og það væri það sem væri til umræðu í tengslum við teikningar franska skoptímaritsins.

Spurningin væri ekki bara um tjáningarfrelsi eða ritskoðun. Gauti sagðist hafa spurt sjálfan sig í kjölfar fársins í kringum Múhameðsteikningar Jótlandspóstsins hvert hafi verið markmið birtinga þeirra. Hann hafi haft efasemdir um það þar sem þar hefði verið gert grín að minnihlutahópi í dönsku samfélagi. Vel væri þekkt í skopmyndasögunni menn gerðu karíkatúrur af óvininum til þess að styrkja myndina af honum sem óvini. Nefndi hann sem dæmi aragrúa skopmynda af Jósef Stalín, Adolf Hitler og Winston Churchill frá heimsstyrjaldarárunum.

Niðurstaða Gauta var sú að framtíð skopsins hlyti að vera óendanleg á meðan mannfólkið væri eins absúrd og það er. Skop þyrfti að vera fyndið án þess að hata.

Gagnrýni á pólitíska rétthugsun á skjön við raunveruleikann

Kristín Loftsdóttir, mannfræðingur, sagði að brandarar um svart fólk og gyðinga hafi verið mjög sýnilegir á Vesturlöndum í langan tíma. Eftir fjöldamorð nasista á gyðingum hafi hins vegar verið farið að líta á kynþáttafordóma sem hættulega. Nú til dags einkenndist umræða af því að enginn vilji kannast við að skoðanir þeirra teljist til kynþáttafordóma.

Þetta þýði hins vegar ekki að fordómum hafi verið útrýmt heldur hafi menn frekar farið út í að réttlæta þá. Í gömlu nýlenduveldunum Bretlandi og Frakklandi sé grín á kostnað blökkumanna til dæmis réttlætt með því að svo langt sé um liðið frá því að löndin réðu ríkjum í nýlendunum. Á Norðurlöndum og sumum öðrum Evrópulöndum séu brandarar á kostnað annarra kynþátta réttlættir með því að engin saga sé fyrir kynþáttafordómum í löndunum. Því sé engin ástæða til að lesa meira inn í þá.

Í samtímanum eigi fordómar sér frekar vísun til menningar eða trúarbragða fólks en til kynþáttar eða uppruna. Rasismi sé kerfisbundin útskúfun fólk sem ekki sé talið eins þróað. Sú skilgreining eigi vel við stöðu múslíma í Evrópu um þessar mundir.

Þá sagðist Kristín afar hissa á tali þeirra sem halda því fram að pólitískur rétttrúnaður banni fólki að gera grín að minnihlutahópum og múslímum sérstaklega. Brandarar sem byggi á fordómum séu vel þekktir og ekki sérlega ögrandi eða frumlegir. Þessi upplifun sé einnig algerlega á skjön við upplifun innflytjenda eins og hún hefur birst í rannsóknum sem hafa verið gerðar. Þannig hafi konur af asísku bergi brotnar hér á landi upplifað það að vera spurðar hvað þær hafi kostað og þeim sagt að fara heim til sín.

„Hér virðist fólk ekki hafa verið feimið við að segja skoðanir sínar,“ sagði Kristín.

Hún sagði einnig að sú túlkun sem sett hefur verið fram á atburðunum í París falli vel að heimsýn sumra um átök á milli trúarbragða. Þá hugmynd að áður fyrr hafi Evrópa verið öll í röð og reglu þar sem mismunandi menningar lifðu hlið við hlið en nú sé allt í rugli út af innflytjendum. Þetta eigi hins vegar ekki við rök að styðjast. Fólk hafi aldrei verið allt á sínum stað og þess vegna væri mikilvægt að spyrja sig til hvers væri vísað með hugtökum eins og „innflytjandi“.

Myndi ekki teikna Múhameð

Að vera grínisti er eins og að vera kokkur. Það þarf að kunna vel til í eldhúsinu og því eldfimara sem hráefnið er því meira þurfi að kunna. Óljós lína er í svörtum húmor. Það er ekki það sem er sagt sem skiptir máli heldur hvernig það sé gert, sagði Hugleikur þegar hann tók til máls. Ef múgur mætti heim til þín með heykvíslarnar þá hefðirðu líklega sagt brandarann vitlaust.

Hugleikur sagði að það gæti verið í lagi að segja „rangan“ hlut svo lengi sem það væri gert „rétt“. Í því samhengi sagði hann að honum hafi blöskrað þegar hann var nefndur í sömu andrá og Egill Einarsson sem hefur kallað sig Gillzenegger.

„Það var ekki út af kvenfyrirlitningunni og öllu því heldur því Gillzenegger er ekkert fyndinn,“ sagði Hugleikur.

Hann sagðist aldrei hafa teiknað Múhameð, spámann múslíma, enda hafi hann ekkert vitað um manninn. Ekkert væri kennt um hann hér á landi, annað en Jesús sem væri alger fjölmiðlahóra. „Eina sem ég veit er að hann nennti ekki til einhvers fjalls þannig að hann lét það koma til sín,“ sagði Hugleikur.

„Ég myndi ekki teikna Múhameð í dag. Ekki vegna þess að það stríði gegn siðferðiskennd heldur vegna þess að ég er mikið fyrir að vera á lífi,“ sagði skopmyndateiknarinn.

Það væri þó ekki vegna þess að hann vildi ekki gera grín að honum. Hann nyti þess að gera grín að trúarbrögðum enda væru þau eitt það fyndnasta við mannkynið.

„Þess vegna er ég hlynntur því að það verði byggð moska svo ég fái önnur trúarbrögð til að gera grín að,“ sagði hann.

Gaman þegar fólk fattar ekki brandarann

Varðandi skopmyndir tímaritsins Charlie Hebdo sagðist Hugleikur ekki geta séð að þær hafi verið rasískar eins og sumir hefðu haldið fram. Blaðið hafi hins vegar gert grín að sönnum rasisma. Skotspónn þeirra hafi ekki verið brúnu innflytjendurnir heldur hvítu rasistarnir. Það hafi sjálfsagt ruglað suma í ríminu.

„Það fatta ekki allir alla brandara. Sumir vilja bara einfalda brandara. Þess vegna var Spaugstofan til,“ sagði Hugleikur.

Nefndi hann sem dæmi skopmynd sem hann teiknaði af manni sem stendur álengdar og bölvar múslímum þar sem hann horfir á geimverur ráðast á borg. Flestir skildu að með því væri ekki að segja að múslímar væru geimverur sem réðust á fólk heldur væri verið að gera grín að því fólki sem héldi það raunverulega.

Það væri hins vegar gaman þegar fólk fattaði ekki brandara því það skapaði umræður. Fólk þyrfti að tala stanslaust saman. Ekki væri hægt að setja gríninu reglur því húmor væri hluti af fólki eins og líffæri og grínið fyndi leið í kringum reglurnar. Vitnaði hann til fleygra orða úr kvikmyndinni Júragarðinum í þessu samhengi: „Lífið finnur alltaf leið“.

Hugleikur sagðist þeirrar skoðunar að hægt væri að misnota húmor með hatri en persónulega fyndist sér það aldrei fyndið.

„Kannski er til leiðinlegt fólk þarna úti sem finnst það fyndið en frá mínum bæjardyrum séð er það ekki með góða kímnigáfu,“ sagði hann.

Kristín Loftsdóttir, próessor í mannfræði.
Kristín Loftsdóttir, próessor í mannfræði. Ómar Óskarsson
Gauti Kristmannsson, prófessor í þýðingafræði.
Gauti Kristmannsson, prófessor í þýðingafræði.
Hugleikur Dagsson, rithöfundur
Hugleikur Dagsson, rithöfundur Ernir Eyjólfsson
mbl.is

Bloggað um fréttina