„Þeirra rödd, rödd haturs og fordóma“

Gréta Björg Egilsdóttir og Gústaf Níelsson.
Gréta Björg Egilsdóttir og Gústaf Níelsson. Samsett mynd

„Skoðanir þessa manns eru öfgafullar og það má lesa úr orðum hans að það sé ekki endilega rétt að allir njóti jafnra réttinda og fordómar séu eðlilegir,“ sagði S. Björn Blöndal, borgarfulltrúi Bjartrar framtíðar en kosið verður um nýjan varamann í mannréttindaráð Reykjavíkurborgar á fundi borgarstjórnar í kvöld.

Ljóst er að Gúst­af Ní­els­son mun ekki taka sæti, en í hans stað verður Gréta Björg Eg­ils­dótt­ir skipuð sem varamaður í ráðið. 

Nokkrir borgarfulltrúar hafa tjáð sig í tengslum við kosninguna. Sagði S. Björn að Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur, borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina, finnist mikilvægt að allar raddir heyrðust í mannréttindamálum og hefði því lagt til að Gústaf Níelsson fengi sæti varamanns. „Þetta er þeirra rödd, rödd haturs og fordóma,“ segir Björn.

Sagði S. Björn einnig að moskumálið svokallaða í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna hefði ekki verið tilviljun og hafi ekki snúist um lóðaúthlutun heldur fordóma. Það hafi aftur á móti snúist um að vinna sér fylgi á forsendum fordóma og ástæða væri til að spyrna við fótum. Sagðist hann einnig ætla að sitja hjá þegar kemur að kjöri fulltrúa Framsóknar og flugvallarvina í ráð og nefndir borgarinnar eftirleiðis.

Halldór Auðar Svansson, borgarfulltrúi Pírata, tók einnig til máls. Sagðist hann einnig ætla að sitja hjá þegar kemur að kjöri fulltrúa Framsóknar- og flugvallarvina í ráð og nefndir borgarinnar.

Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur, borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina, sagði að sér finnist mjög einkennilegt að S. Björn standi í pontu og „rægi einstakling úti í bæ sem situr ekki fundinn og getur ekki tjáð sig.“ Sagði hún að sér finnist það dónaskapur.

Sagði hún meðal annars að Framsóknarflokkurinn líði enga mismun, virði trúfrelsi og sé ekki á móti byggingu mosku í Reykjavík.

Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, sagði kosningu varamannsins hafa verið pólitíska yfirlýsingu. „Þetta snerist ekki um einstakling, þetta snerist um að ljá rödd málstað sem einkenndist af öllu því sem mannréttindaráð berst gegn,“ sagði hún. Þá sagðist hún einnig ekki ætla að styðja þá fulltrúa sem Framsókn og flugvallarvini tilnefna hér eftir.

Guðfinna Jóhanna steig aftur í pontu og sagði skipunina síður en svo hafa verið pólitísk yfirlýsing. Sagðist hún aldrei ætla að greiða atkvæði með tillögum sem Sóley leggur til, hvar sem það verður. Sagði hún einnig að „þetta væri orðið verra en einhver tólf ára bekkur.“

Gréta Björg Egilsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, sagðist vísvitandi ekki hafa tjáð sig um moskumálið hingað til. Sagðist hún alls ekki vera á móti múslimum og ekki á móti byggingu mosku í Reykjavík.

Uppfært kl. 00.21

Samþykkt var með tólf atkvæðum að Gréta Björg Eg­ils­dótt­ir taki sæti Gústafs Níelssonar sem varamaður í mannréttindaráði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka