Andlát: Önundur Ásgeirsson, fyrrverandi forstjóri

Önundur Ásgeirsson.
Önundur Ásgeirsson.

Önundur Ásgeirsson, fyrrverandi forstjóri, andaðist á Hjúkrunarheimilinu Eir 2. febrúar síðastliðinn, á 95. aldursári.

Önundur fæddist 14. ágúst 1920 á Sólbakka við Flateyri í Önundarfirði. Hann var sonur hjónanna Ásgeirs Torfasonar, skipstjóra og síðar verksmiðjustjóra á Sólbakka, og Ragnheiðar Eiríksdóttur, húsmóður.

Önundur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1940, prófi í viðskiptafræði (cand. oecon.) frá Háskóla Íslands (HÍ) 1944 og prófi í lögfræði (cand. juris) frá H.Í. 1947.

Hann var fulltrúi forstjóra Olíuverslunar Íslands, Olís, frá því í júní 1947 þar til í júní 1966 og tók þá við sem forstjóri fyrirtækisins. Önundur gegndi því starfi þar til í júní 1981. Hann var í stjórn Verslunarráðs Íslands frá 1965 til 1982. Eftir að Önundur hætti hjá Olís var hann stjórnarformaður Alpan á Eyrarbakka um árabil og voru það síðustu afskipti hans af viðskiptalífinu.

Önundur skrifaði Um olíuverzlun á Íslandi (útg. Olíuverzlun Íslands 1972) og fjölda greina í Morgunblaðið og fleiri blöð, m.a. um kvótakerfið og snjóflóðavarnir í Önundarfirði. Hann var virkur félagi í Frímúrarareglunni og áhugamaður um norræna goðafræði.

Önundur kvæntist Evu Ragnarsdóttur, f. 1922, stúdent frá M.A. 1943, þann 21. júlí 1946. Hún lifir mann sinn. Þau eignuðust fjögur börn; Gretu, f. 1948, Ásgeir, f. 1950, Ragnar, f. 1952 og Pál Torfa, f. 1955.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »