Bíður eftir útskýringu frá Hópbílum

Ferðaþjónusta fatlaðra var endurskipulögð um áramótin og hefur gengið erfiðlega …
Ferðaþjónusta fatlaðra var endurskipulögð um áramótin og hefur gengið erfiðlega að láta hana virka rétt. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Framkvæmdarstjóri Strætó, Jóhannes Rúnarsson, harmar atvik sem varð í dag er mikið fatlaður maður var skilinn eftir á röngum stað af starfsmanni ferðaþjónustu fatlaðs fólks.

„Ég hef ekki fengið formlega útskýringu frá Hópbílum sem er verktakinn þar sem að þessi ákveðni bílstjóri starfar og get því lítið tjáð mig um hvað nákvæmlega fór úrskeiðis í dag,“ segir Jóhannes í samtali við mbl.is. „En ég var í sambandi við móður mannsins fyrr í dag þar sem við fórum aðeins yfir málið.“

Í kjölfar þess að átján ára þroskaskert stúlka gleymdist í bíl ferðaþjónustunnar í síðustu viku var skipuð bráðabirgðarstjórn yfir þjónustuna með aðkomu full­trúum hags­muna­sam­taka. Að sögn Jóhannesar fundaði hann ásamt þeirri stjórn fyrr í kvöld. 

„Það sem stjórnin er að gera núna er að fara  yfir allt ferlið og reyna að sníða af þá agnúa sem hægt er að sníða af. Til dæmis verður farið yfir þjálfun og menntun bílstjóranna og reynt að sjá hvort að það þurfi að bæta einhverju við þar. Svo höfum við bætt við starfsmönnum í kringum skipulagningu þjónustunnar sem eru reyndar í þjálfun núna. Einnig erum við að bæta við starfsmanni í kringum skráningu og upplýsingu sem er forsenda fyrir því að þjónusta berist notendum,“ segir Jóhannes. 

Jóhannes Rúnarsson framkvæmdarstjóri Strætó.
Jóhannes Rúnarsson framkvæmdarstjóri Strætó.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert