„Hefðu átt að hugsa sig tvisvar um“

Forsíða Charlie Hebdo eftir árásina á ritstjórnarskrifstofur skopmyndablaðsins.
Forsíða Charlie Hebdo eftir árásina á ritstjórnarskrifstofur skopmyndablaðsins. EPA

„Jótlandspósturinn og Charlie Hebdo hefðu átt að hugsa sig tvisvar um áður en móðgandi umfjöllun þeirra um Múhameðstrú var birt,“ segir í umsögn Berunessóknar um frumvarp þess efnis að fella beri úr almennum hegningarlögum 125. gr. laganna en með henni er guðlast gert refsivert.

Skiptar skoðanir eru um frumvarpið sem Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, mælti fyrir. Í greinargerð með frumvarpinu segir: „Tjáningarfrelsið er einn af hornsteinum lýðræðis. Það er grundvallaratriði í frjálsu samfélagi að almenningur geti tjáð sig án ótta við refsingar af nokkru tagi, hvort heldur sem er af völdum yfirvalda eða annarra.“

Í umsögn Biskupsstofu segir: „Biskup Íslands telur að lagaheimildir sem setja tjáningarfrelsinu skorður með þessum hætti standist ekki nútíma viðhorf til mannréttinda og að tjáningarfrelsið sé einn af mikilvægustu hornsteinum lýðræðis og frelsis. Það sé grundvallaratriði í frjálsu samfélagi að almenningur geti tjáð sig án ótta við refsingar.“

Getur leitt til andlegs ofbeldis

En ekki eru öll trúfélög jafn jákvæð í garð frumvarpsins. Þannig segir í umsögn Hvítasunnukirkjunnar Fíladelfíu: „Eru það mannréttindi að mega hæðast að átrúnaði annarra? Eru það nauðsynleg réttindi að mega opinberlega kynda undir lítilsvirðingu á hópi fólks vegna trúar þeirra? [...] Með því að afnema núgildandi lög um guðlast er verið að lögleiða hatursorðræðu. Lögin banna ekki frjálsa tjáningu skoðana, þau banna ekki gagnrýni á trúarbrögð, þau banna skrumskælingu, háð og fordómahvetjandi tjáningu.“

Og kaþólska kirkjan á Íslandi er sömu skoðunar og Hvítasunnukirkjan: „Í lífi trúaðra manna er trúin og guðsmynd hans veigamikill þáttur af tilveru og sjálfsmynd hans og æru, sem löggjafanum ber að vernda. Leiði tjáningarfrelsi til þess að óheft megi smána sjálfsmynd trúaðs einstaklings þá er í raun á sama tíma verið að grafa undan trúfrelsi manna sem einstaklinga og hóps. En það leiðir aftur til þess að ótakmarkað og óheft tjáningarfrelsi án ábyrgðar og án eðlilegra samfélagslegra takmarkana getur leitt til andlegs ofbeldis gagnvart einstaklingi og hópi manna.

Kaþólska kirkjan á Íslandi hvorki getur né mun samþykkja að opnað sé á þann möguleika að unnt sé að beita einstaklinga eða hóp einstaklinga andlegu ofbeldi.“

Steininn tekur hins vegar úr þegar kemur að umsögn Berunessóknar, sem er undir þjóðkirkjunni. Í henni segir: „Er alfarið á móti efni frumvarpsins. Jótlandspósturinn og Charlie Hebdo hefðu átt að hugsa sig tvisvar um áður en móðgandi umfjöllun þeirra um Múhameðstrú var birt. Þótt lagagreinin hafi ekki oft verið virkjuð, þarf þetta aðhald að vera til staðar.“

Vantrú og biskup Íslands sammála

Varla er hægt að halda því fram að biskup Íslands og þjóðkirkjan séu sammála samtökunum Vantrú um margt. En það á við um afnám 125. greinar almennra hegningarlaga. Sama má segja um Siðmennt sem er fylgjandi frumvarpinu og ríkissaksóknara en í umsögn hans segir: „Ríkissaksóknari tekur undir rök flutningsmanna fyrir því að fella brott 125. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og leggur til að frumvarpið verði samþykkt.“

Frestur til að senda inn umsögn um frumvarpið rennur út á föstudaginn og því allt eins víst að nokkur trúfélög til viðbótar eigi eftir að láta skoðun sína á efni þess í ljós fyrir þann tíma.

Frétt mbl.is: Lög gegn guðlasti hættuleg

mbl.is

Bloggað um fréttina