Jöklarnir 12% minni en áður talið

Mynd frá ágúst 2012 af jaðar Breiðamerkurjökuls. Bláa línan sýnir …
Mynd frá ágúst 2012 af jaðar Breiðamerkurjökuls. Bláa línan sýnir jaðar jökulsins 2001. Ljósmynd/Loftmyndir

Íslenskir jöklar þekja ekki jafn stóran hlut af landsvæði og áður var talið. Þetta kemur fram á nýjum loftmyndum fyrirtækisins Loftmyndir ehf.

Karl Arnar Arnason, framkvæmdastjóri Loftmynda, segir í tilkynningu, að endurnýjun loftmynda fyrirtækisins sé búin að vera í gangi undanfarin tvö ár. 

„Eldri myndir Loftmynda voru frá árunum í kring um aldamót og sýna nýju myndirnar miklar landbreytingar,“ segir Karl og bætir við að ekki sé óalgengt að sjá hörfun jökla upp á mörg hundruð metra og sumstaðar í kílómetrum.

Opinbera talan yfir stærð jökla á Íslandi er 11.922 ferkílómetrar eða á milli 11% og 12% af heildarflatarmáli landsins. „Þessi opinbera tala sem kennd hefur verið í landafræðibókum virðist byggð á nokkuð gömlum mælingum og full ástæða er orðin til að uppfæra hana,“ segir Karl og tekur sem Hofsjökul sem dæmi. „Opinbera stærðin á Hofsjökli er 925 ferkílómetrar. Á Spot gervitunglamyndum frá árinu 2006 hefur hann minnkað niður í 864 ferkílómetra en samkvæmt nýjum mælingum Loftmynda frá því síðasta sumar er flatarmál hans 827 ferkílómetrar,“ segir Karl. Í dag er Hofsjökull því rúmlega 10% minni í raun en segir í opinberum gögnum.

Mældu heildar jöklaþekju á Íslandi

Karl segir að til þess að uppfæra gömlu stærðirnar hafi starfsmenn Loftmynda ákveðið að mæla upp nýja heildar jöklaþekju af Íslandi og reikna nýjar flatarmálstölur. „Nýja jöklaþekjan miðast við stöðuna sumarið 2014 og byggir á nýlegum loftmyndum fyrirtækisins og til stuðnings voru einnig notaðar gervitunglamyndir frá Landsat8 gervitunglinu. Niðurstaða þessara mælinga er að heildar flatarmál jökla á Íslandi sumarið 2014 var 10.462 ferkílómetrar sem er 10% af heildarflatarmáli landsins,“ segir Karl.

Séu opinber gögn borin saman við nýjar tölur Loftmynda sést að nýjustu tölurnar eru rúmlega 12% lægri en þær opinberu.

mbl.is