Birgitta segist elska Skagafjörð

Birgitta Jónsdóttir, kafteinn Pírata.
Birgitta Jónsdóttir, kafteinn Pírata. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég elska Skagafjörð. Amma mín fæddist og ólst upp á Reykjum á Reykjaströnd og fjörðurinn skartar bæði fallegu mannlífi og náttúru. Ég elska sögurnar sem amma sagði mér um Glerhallavík og hvernig hún í einsemd sinni lærði að hlusta á og vingast við fugla og kóngulær,“ segir Birgitta Jónsdóttir, kafteinn Pírata, á Facebook-síðu sinni í dag. Tilefnið eru ummæli hennar fyrir helgi um að Skagafjörður væri Sikiley Íslands vegna meintrar spillingar þar. Ummælin voru meðal annars gagnrýnd af Elliða Vignissyni, bæjarstjóra Vestmannaeyja.

„Ég elska líka Ísland. Stundum þegar ég reyni að útskýra fyrir útlendingum hvernig okkur tókst að skapa hér umhverfi, þar sem var orsök og afleiðing bankahrunsins, dró okkur niður í óhugnalega kreppu sem við erum enn að glíma þar sem m.a. heilbrigðiskerfið er hrunið að hluta. Hvernig standi á því að svo fámenn þjóð með svo mikil auðæfi allt í kringum okkar í landi sem talið var vera þróaðasta ríki heims samkvæmt einhverjum stöðlum hjá S.Þ., búi yfir jafn hörmulegum veruleika að sívaxandi fjöldi einstaklinga getur ekki dregið fram lífið nema með matargjöfum,“ segir Birgitta ennfremur og bætir við:

„Til að reyna að setja þetta í samhengi þá dreg ég fram eftirfarandi myndlíkingu: Ísland er eins og Sikiley Norðursins eða Stóra Sikiley, nema hér er enginn myrtur með skotvopnum, heldur eru þeir sem fara gegn mafíunni sem eru stundum kölluð Kolkrabbinn, mannorðsmyrtir eða útskúfaðir. Kannski er þetta djúpt í árina tekið, kannski hef ég móðgað einhverja eða sært. Það var ekki ætlunin. Stundum þá kalla ég Reykjavík Sódómu, þegar ég labba snemma morguns um miðbæinn og þarf að passa mig á að stíga ekki í pisspolla og ælu. Ég elska samt Reykjavík.“

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, leggur orð í belg á Facebook-síðu Birgittu og segir gagnrýnina á ummæli hennar ekki makleg. „Skagafjörður og Sikiley eiga nefnilega það sameiginlegt að vera staðir. Ekki mafíur eða viðskiptaveldi, heldur staðir. Síðan eru hinsvegar mafíur og viðskiptaveldi sem eiga uppruna sinn frá téðum stöðum. Í þeirri staðreynd felst enginn dómur yfir Skagafirði eða Sikiley sem stöðum, eða íbúum þeirra staða.

Fréttir mbl.is: 

Tekur upp hanskann fyrir Skagafjörð

Segir Skagafjörð „Sikiley Íslands“

Skjáskot
mbl.is

Bloggað um fréttina