Meiri snjór nú en í mars á hálendinu

Snjóþungt á hálendinu.
Snjóþungt á hálendinu. Rax / Ragnar Axelsson

„Það sem er sérstakt er að snjór hefur aukist á svæðinu nú frá því að skálaverðir voru á ferðinni þarna í mars,“ segir Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands. Um helgina fóru skálaverðir í Baldvinsskála á Fimmvörðuhálsi en þar er afar snjóþungt og sérstakar aðstæður fyrir hendi. Það snjóaði mikið seinnipart vetrar og lítið hefur tekið upp. Snjórinn er orðinn gljúpur og blautur svo erfitt er að ganga í honum, „menn sökkva upp á hné í hverju skrefi.“

Páll segir að aðstæður hafi ekki verið svo slæmar í um tuttugu ár. Nú er þó í kortunum að ekki verði næturfrost og geta aðstæður verið fljótar að breytast ef hitinn hækkar og sólin lætur sjá sig.

Þá eru margir ferðamenn sem fara af stað og byrja að ganga Laugaveginn eða Fimmvörðuháls þrátt fyrir þessar erfiðu aðstæður. „Þeir fara ekki eftir tilmælum skálavarða og ganga af stað,“ segir Páll en hann bendir á að því miður hafi skálverðir ekki umboð til þess að stöðva ferðamenn, til þess þarf opinberan aðila.

Vegagerðin við mokstur 

Í viðtali við mbl.is segir G. Pétur Matthíasson upplýsingafulltrúi hjá Vegagerðinni að Vegagerðina hafa verið í samstarfi við ferðaþjónustuna um að opna fyrr fyrir ákveðna vegi í Landmannalaugum, en það er undanþáguakstur sem fylgir ströngum skilyrðum og er aðeins í boði fyrir sérútbúna bíla. Þá hafa þeir einnig verið í samstarfi við starfsmenn Kerlingafjalla um að moka Kjalveg til að flýta fyrir opnun þar.

Á hálendinu er veðurfar oft rysjótt en snjólög ráða mestu um opnun fjallvega þá getur bleyta í vegum einnig valdið því að þeir opni seinna. Á vorin, meðan snjó er að leysa og frost er að fara úr jörðu, er mikil hætta á skemmdum á vegum og gróðri. Þessar skemmdir stafa einna helst af ótímabærri umferð og því að ekið er utan vega.

Opnanir síðustu fimm ár

Pétur bendir á vef Vegagerðarinnar en á honum má finna upplýsingabækling um opnanir síðustu fimm ár. Á síðustu fimm árum hefur verið mánaðarsveifla á því hvenær fjallavegir eru að opnast. Til dæmis í Landmannalaugum hafa þeir verið að opna fyrst í kringum 31. maí og í síðasta lagi 29. júní. Hann segir erfitt að áætla hvenær þeir verði opnaðir í ár enda ræðst allt af veðurfarinu.

Þar sem fjallvegir liggja um friðlýst svæði er mögulegt að þeir séu ekki opnaðir fyrr en svæðið er talið hæft til þess að taka við ferðamönnum, þrátt fyrir að vegirnir séu orðnir auðir og geti borið umferð.

Þá má nálgast hálendiskort á vefnum sem segir til um hvaða vegir eru opnir hverju sinni.

Baldvinsskáli.
Baldvinsskáli. Úr einkasafni.
Mikil snjóþyngsl eru á hálendinu.
Mikil snjóþyngsl eru á hálendinu. Úr einkasafni.
mbl.is