Veitir þolendum fría ráðgjöf

Sigrún Jóhannsdóttir héraðsdómslögmaður, býður þolendum kynferðisofbeldis ráðgjöf og þjónustu þeim …
Sigrún Jóhannsdóttir héraðsdómslögmaður, býður þolendum kynferðisofbeldis ráðgjöf og þjónustu þeim að kostnaðarlausu. ljósmynd/Úr einkasafni

„Að mínu mati hefur vantað vettvang þar sem einstaklingar geta leitað ráða hvað varðar hina lagalegu hlið kynferðisofbeldis, hjá fagaðilum sem hafa reynslu og þekkingu af málaflokknum,“ segir Sigrún Jóhannsdóttir héraðsdómslögmaður, sem nú býður þolendum kynferðisofbeldis ráðgjöf og þjónustu þeim að kostnaðarlausu.

Sigrún, sem rekur lögmannsstofuna Lögvís, hefur starfað sem réttargæslumaður brotaþola í refsimálum undanfarin ár. Hún hyggst nú miðla þekkingu sinni til þolenda sem eru að stíga sín fyrstu skref í lagalega ferlinu. Sigrún segist lengi hafa hugsað um að setja á stokk þjónustu af þessu tagi og segir byltinguna, sem átt hefur sér stað á samfélagsmiðlum síðustu vikur, endanlega hafa komið hugmyndinni í framkvæmd.

„Margir voru þarna að segja frá ofbeldinu í fyrsta sinn eða færa umræðuna á opnari vettvang. Eðlilega koma þá upp vangaveltur um kæruferlið og öðru því tengdu. Mér fannst þess vegna mikilvægt að þessi þjónusta væri í boði, þar sem brotaþolar og aðrir gætu fengið ráðleggingar og svör í takt við það sem er í gangi núna í lagaumhverfinu. Stundum nægir að heyra það frá öðrum að um hreint og klárt brot hafa verið að ræða,“ segir hún og bætir við að margir hafi velt því fyrir sér hvenær brot fyrnist eða hvað felist í kynferðisbrotaákvæðum hegningarlaga. Hún geti upplýst þolendur um slík atriði og öll önnur sem tengjast lagaumhverfinu.

Undirbýr þolendur m.a. fyrir skýrslutöku

Í þjónustunni felst ráðgjöf, hvort sem brotaþoli ákveður að kæra eða ekki. Kjósi hann að kæra sér Sigrún um að tilkynna brotið til lögreglu og fá tíma í skýrslutöku. Þá fer hún í gegnum ferlið með brotaþola og er í kjölfarið tilnefnd sem réttargæslumaður. „Sá kostnaður sem kann að falla til vegna málsins er þá greiddur úr ríkissjóði og á meðan málið er til meðferðar getur brotaþoli verið öruggur um að enginn kostnaður muni falla á hann,“ segir hún og heldur áfram:

„Það er mikilvægt að brotaþolar viti hvað þeir eru að fara út í áður en ferlið hefst, bæði fyrir þá persónulega og hvað málið þeirra varðar. Stundum endar þetta í orði á móti orði og þá skiptir trúverðugleikinn miklu máli, m.a. hvort innbyrðis mótsagnir séu í því sem brotaþoli hefur vitnað um í ferlinu. Þar sem algengt er að minnið bregðist brotaþolum, fyrst um sinn eftir brotið, getur verið gott að rifja upp atburðarásina fyrir skýrslutökuna og gæta þess að greina skýrt og skilmerkilega frá atburðinum. Ástæða þessa gloppótta minnis tel ég m.a. stafa af því að við árás sem þessa fer öll orka líkamans og athygli í að verjast hana og reyna að lifa af, ekki í að skoða umhverfið og leggja atburðarrásina á minnið. Líkaminn er fullkominn á þann hátt,“ segir hún og bætir við að ásamt þjónustunni reyni hún að beina brotaþolum til sálfræðings eða annarra fagaðila. „Ég legg mjög mikla áherslu á það því það er meira en að segja það fyrir manneskju að vinna eina úr reynslu af þessu tagi.“

Almenningur ekki nægilega upplýstur

Sigrún segir það áberandi í umræðunni að almenningur sé ekki nægilega upplýstur um hið lagalega ferli í málum af þessu tagi. „Það er til dæmis oft talað um að sönnunarbyrðin sé svo erfið, eins og þetta sé náttúrulögmál, en ég er ekki sammála því. Það er margt í ferlinu frá því brotaþoli kærir, þar til málið kemur fyrir dómstóla, sem mætti bæta. Það myndi ekki einungis hjálpa brotaþolum að sjá réttlætinu framfylgt, heldur einnig þeim, sem sakaðir hafa verið að ósekju um kynferðisbrot. Enda er mín tilfinning sú að niðurfelling máls hafi litla merkingu í augum almennings í dag, aðra en þá hvað réttarkerfið er illa í stakk búið að takast á við þennan málaflokk.“

Hún segir margt hafa breyst til hins betra á stuttum tíma þó enn megi margt betur fara. Þá skipti það miklu máli hvernig kerfið nálgist brotaþola á fyrstu stigum máls.

Skiptir máli hvaða orð eru sögð

Þar af leiðandi segir hún það afar mikilvægt að réttargæslumenn þekki kynferðisbrot og afleiðingar þeirra og viti hvernig umgangast eigi einstaklinga sem hafa lent í slíkum brotum. „Það getur skipt svo miklu máli hvaða orð eru sögð. Réttargæslumaður er andlit kerfisins gagnvart brotaþola og stjórnar svolítið hans upplifun af ferlinu. Ónærgætin orð geta haft mjög mikil áhrif á bataferli einstaklings, að mínu mati.“

Þegar komin með nokkra skjólstæðinga

Sigrún segist vonast til þess að geta miðlað þekkingu sinnu og reynslu og er bjartsýn um að þjónustan muni komi að notum. „Fólk getur komið hingað á fund til mín eða sent mér tölvupóst með fyrirspurn, nafnlaust þess vegna. Það er skelfilegt hvað kynferðisofbeldi er algengt en ég er ánægð með síðustu vikur og mér finnst þau sem hafa stigið fram ótrúlega hugrökk.“

Þá segist hún ætla að einblína á kynferðisbrot til að byrja með, en síðar meir langi henni jafnframt að veita þolendum annars konar ofbeldisbrota fría ráðgjöf. „Ég mun ekki vísa neinum frá,“ segir hún og bætir við að þegar hafi nokkrir leitað til hennar vegna þjónustunnar, sem hún kynnti fyrst á þriðjudaginn.

Loks segist hún hafa ýmsar fleiri hugmyndir sem hana langi að hrinda í framkvæmd varðandi bætta stöðu brotaþola. „Þetta er fyrsta skrefið og ég er langt frá því hætt.“

Hafa má samband við Sigrúnu í gegnum netfang, sigrun@logvis.is, en einnig má nálgast upplýsingar um þjónustuna á Facebook.

Bylting hefur orðið á samfélagsmiðlum síðustu vikur og hafa fjölmargir …
Bylting hefur orðið á samfélagsmiðlum síðustu vikur og hafa fjölmargir mydgert vandann með því að setja aðra þessarra mynda í forsíðumynd á Facebook. Gula myndin þýðir að maður þekki einhvern sem hefur orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi en sú appelsínugula þýðir að maður hafi sjálfur orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Samsett mynd
Sigrún segir kynferðisofbeldi því miður alltof algengt.
Sigrún segir kynferðisofbeldi því miður alltof algengt. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert