Tveir fangar struku af Kvíabryggju

Fangelsið á Kvíabryggju á Snæfellsnesi
Fangelsið á Kvíabryggju á Snæfellsnesi mbl.is/Gunnar Kristjánsson

Tveir ungir fangar struku af Kvíabryggju í gærkvöldi. Þeirra er nú leitað en að sögn Páls Winkels, fangelsismálastjóra, eru þeir ekki taldir hættulegir. Hann hvetur þá til þess að gefa sig fram svo afleiðingarnar verði ekki verri fyrir þá en þegar er orðið.

Uppfært kl. 12.38: Fangarnir fundnir

Mennirnir eru 19 og 21 árs og eiga sér báðir langa neyslusögu. Að sögn Páls samanstendur brotasaga þeirra af neyslubrotum og auðgunarbrotum. Þegar í ljós kom að þeir hafi ekki skilað sér inn á herbergi í gærkvöldi var strax haft samband við lögreglu.

Við reynum þegar menn eru á fyrri hluta afbrotaferils og eru svona ungir að gefa þeim möguleika með því að senda þá í opið fangelsi. Þetta hefur almennt gengið vel og áratugir síðan menn hafa strokið úr opnum fangelsum,“ segir Páll.

Á vef fangelsismálastofnunar segir um Kvíabryggju: „Segja má að fangelsið sé opið að því leyti að þar eru hvorki rimlar fyrir gluggum né heldur er svæðið öðru vísi afgirt en venjuleg sveitabýli. Einkum er því reynt að vista þar menn, sem hafa lítinn sakaferil eða þá að ætla má að þeim sé treystandi til þess að afplána við slíkar aðstæður. Skilyrði er að fangar sem vistast á Kvíabryggju séu vel vinnufærir og duglegir til verka.“

Páll segir að strok geti haft miklar afleiðingar. Piltarnir verða væntanlega sendir á Litla Hraun í kjölfarið og eftir því sem þetta vindur upp á sig þá hefur þetta meiri afleiðingar varðandi framvindu í afplánun, segir hann.

Strok getur haft áhrif á reynslulausnir, dagsleyfi, vistun á áfangaheimili ofl. Hann hvetur ungu mennina til þess að gefa sig fram sem fyrst.

Þar sem þeir eru ekki taldir hættulegir hefur að svo stöddu verið ákveðið að lýsa ekki eftir þeim með nafni og mynd. Það komi jafnvel til greina en það verði metið í samráði við lögreglu.

Á vef Afstöðu, vef fanga, kemur fram að piltarnir hafi verið stutt á Kvíabryggju og meðal yngstu fanga þar. 

Fangelsisvist er alltaf íþyngjandi og getur oft á tíðum reynst ungu fólki mikil raun. Ekki má heldur gleyma að umræddir piltar eiga aðstandendur sem líða fyrir atburðinn og þá óvissu sem fylgir því að vita ekki í hvaða aðstæðum þeir ef til vill hafa komið sér í.

Atvikið endurspeglar þó fyrst og fremst skort á úrræðum innan fangelsiskerfisins til að aðstoða þá sem á því þurfa að halda. Ekki er nóg að loka menn inni sem eiga við vandamál, eins og fíkn, að stríða heldur ber að veita þeim aðstoð sem er því miður af skornum skammti í fangelsiskerfinu í dag,“ segir enn fremur í færslu á vef Afstöðu.

DV birti fyrst frétt af stroki fanganna í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert