Segist ekki hafa vitað af smiti

Maðurinn leiddur fyrir dómara. Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald til …
Maðurinn leiddur fyrir dómara. Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald til 20. ágúst. Ljósmynd/Pressphoto

Maðurinn sem grunaður er um að hafa smitað ungar konur af HIV-veirunni heldur því fram að hann hafi ekki vitað að hann væri smitaður. Þetta staðfestir Guðmundína Ragnarsdóttir lögmaður, en hún fer með mál mannsins sem hefur áfrýjað fjögurra vikna gæsluvarðhaldsúrskurði til hæstaréttar.

Guðmundína segist ekki getað staðfest hvort maðurinn hafi gengist undir læknisskoðun sem hælisleitendur eru látnir gangast undir samkvæmt reglum sóttvarnalæknis. Í þeirri skoðun er m.a. skimað eftir HIV.

Annar lögmaður fer með mál mannsins er snýr að hælisumsókn hans.

Kæra mannsins og kærugögn bárust hæstarétti í dag en Guðmundína mun skila greinargerð í kvöld eða fyrir hádegi á morgun. Hún segir að lögregla telji sig hafa rökstuddan grun um brot á ákveðnum lagagreinum en vill ekki ræða málið að öðru leyti.

Guðmundína gerir ráð fyrir að dómur muni liggja fyrir eftir helgi.

Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar, segir að sér sé ekki kunnugt um að hælisleitendur hafi neitað að gangast undir heilsufarsskoðun en segir það þó ekki til marks um að slíkt hafi ekki gerst. Ferlið sé unnið samkvæmt fyrirskipun frá sóttvarnalækni og niðurstöður heilsufarsskoðana berist ekki Útlendingastofnun nema þær varði forsendur hælisumsóknar.

Hún segir að öllu jöfnu líði á bilinu 1-5 dagar frá því að hælisleitandi gefur sig fram og þar til hann er boðaður í skoðun. Bæði Útlendingastofnun og sveitarfélögin sjá um að panta tíma fyrir viðkomandi. Krístín segir Útlendingastofnun ekki fá tilkynningu ef viðkomandi mætir ekki í skoðunina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert