Hringurinn að þrengjast

Mynd úr myndskeiði lögreglu.
Mynd úr myndskeiði lögreglu.

Margar ábendingar hafa borist lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í kjölfar innbrotsins í Firðinum í Hafnarfirði aðfaranótt sunnudagsins 2. ágúst. Sævar Guðmundsson, aðalvarðstjóri á lögreglustöðinni í Hafnarfirði, segir að málið sé í rannsókn og á viðkvæmu stigi. Enginn hafi verið handtekinn í tengslum við málið.

Guðmundur Bjarni Harðarson, framkvæmdastjóri Fjarðar, segir hins vegar að hringurinn sé að þrengjast. Hann segir allt benda til að mannleg mistök hafi valdið því að öryggiskerfið var ekki í gangi. „Það kemur öryggisvörður hingað um nóttina, milli hálfsex og sex, og setur það ekki á því hann er í kjölfarið að fara að opna húsið. Það líður þó einhver tími þarna á milli. Það er ekki talið að þetta tengist innbrotinu,“ segir Guðmundur.

„Þetta er afskaplega útpæld tímasetning. Bæði er bakaríið lokað og veitingastaðurinn Silfur, sem er opinn 360 daga á ári. Maður getur næstum því gefið sér að þjófurinn hafi séð öryggisvörðinn fara,“ segir Guðmundur, svo úthugsað hafi innbrotið verið. „Hann virðist þekkja vel til og er ekki að gera þetta í fyrsta skipti. Allt bendir til þess, handskarnir, að hylja á sér andlitið. Það er voðalega lítið af vegsummerkjum.“

Guðmundur hvetur alla þá sem hafa orðið við mannaferðir kringum Fjörð milli sex og sjö á sunnudagsmorgni að koma ábendingum til lögreglu í síma 444-1000. „Hann fer hérna bakdyramegin út og hann er með bíl eða farartæki sem hann þarf að fara á.“

Frétt mbl.is: Hefur þú séð þennan mann?

Frétt mbl.is: Ránsfengurinn hleypur á milljónum

Frétt mbl.is: Þjófavarnarkerfið tekið úr sambandi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert