Byggðu skóla fyrir flöskupening

Paul og Rosmary ásamt börnum sínum.
Paul og Rosmary ásamt börnum sínum. Af vefnum Bærinn Okkar.

Í sumar munu hjónin Paul Ramses og eiginkona hans Rosmary Atieno Obhiambo opna grunnskóla í Kenía fyrir 320 börn. Nú þegar reka þau leikskóla á æskuslóðum sínum. Fjölskyldan safnaði fyrir skólabyggingunni með því að safna flöskum í sex mánuði.

Þetta kemur fram í viðtali við hjónin sem birtist í dag á miðlinum Bærinn okkar sem flytur fréttir af Stór-Hafnarfjarðarsvæðinu.

Mál Paul Ramses vakti mikla athygli á sínum tíma en hann og Rosmary fengu pólitískt hæli hér á landi árið 2010 eftir langa baráttu. Í dag búa þau  á Völlunum í Hafnarfirði ásamt börnum sínum tveimur og líkar vel.

Í samtali við Bæinn okkar kemur fram að fjölskyldan hafi safnað milljón með því að fara allar helgar niður í bæ í sex mánuði og safna flöskum.

„Ágóðann notuðum við síðan til þess að kaupa land í Kenía þar sem við byggðum leikskóla góðgerðarsamtakanna Tears children sem við stofnuðum. Leikskólinn opnaði formlega árið 2012 og hann sækja 100 börn á aldrinum 3-5 ára, en mörg þeirra eru munaðarlaus eða börn einstæðra mæðra,“ segir Rosmary. Hún segist jafnframt vera heilluð af íslenska menntakerfinu og að leikskóli þeirra hjóna í Kenía sé rekinn að íslenskri fyrirmynd. Grunnskólinn sem hjónin opna í sumar verður á sama landskika.

Að sögn Paul er mikil fátækt á svæðinu þar sem leikskólinn stendur. „Fátækt fylgir oft skortur á menntun og skortur á menntun og fáfræði er ein helsta ógnin við mannréttindi. Sem dæmi, þá eru margar ekkjur á þessu svæði sem búa við hræðilega fátækt og horfa upp á börnin sín svelta. Til þess að bjarga lífi sínu og barna sinna hafa sumar þeirra tekið upp á því að selja börnin sín í vændi. Og við vitum um dæmi um stúlkubörn allt niður í 10 ára aldur sem hafa orðið óléttar eða smitast af HIV veirunni. Þetta er skelfilegt ástand. Eina leiðin til þess að stemma stigu við þessu er menntun. Menntun fyrir mæðurnar og menntun fyrir börnin. Þess vegna vildum við að verkefnið okkar myndi ná til alls samfélagsins. Til þess að bæta hag barna og berjast gegn fátækt þurfum við að valdefla konur í samfélaginu. Því höfum við fengið hóp ekkna og einstæðra mæðra til þess að búa til alls konar listmuni sem við síðan seljum í Kolaportinu, í Firði og út um allt land. Allur ágóðinn rennur svo aftur til þess að reka skólann. Á þennan hátt leggja konurnar af mörkum til menntunar barna sinna.“

Í viðtalinu kemur fram að nemendur úr Verslunarskóla Íslandi hafi safnað peningum til styrktar verkefnisins og hlaut leikskólinn til dæmis nafnið Litla Versló vegna þess. Einnig hefur hópur úr Brekkubæjarskóla á Akranesi hjálpað til og safnað peningum til að byggja vatnsbrunn fyrir skólann.

Að sögn hjónanna stendur til að hafa tónlistarherbergi, bókasafn og efnafræðistofu í skólanum sem verður opnaður seinna í mánuðinum.

Hér má sjá viðtalið í heild sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert