Sakar ráðherra um heimsku og lygar

Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður.
Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður. mbl.is/Kristinn

Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður, sakar Gunnar Braga Sveinsson, utanríkisráðherra um heimsku og lygar á Facebooksíðu sinni.

„Heimskur og lyginn ráðherra !

Af fréttum fjölmiðla í gær og í dag er ljóst að Gunnar Bragi hafi ekki samráð við aðra ráðherra í ríkisstjórn þegar hann ákvað að setja viðskiptabann á Rússland.

Heimskulegast ákvörðun ráðherra í ríkisstjórn Sigmundar og Bjarna.

Ráðherrann fór því með rangt mál í Mogga gærdagsins.

Spurning hefur þjóðin efni á heimskum og lygnum ráðherra, skrifar Sigurður G. Guðjónsson á Facebook í morgun.

Vísar hann þar til viðtals við Gunnar Braga í Morgunblaðinu í gær vegna viðskiptabanns á Rússland. Þar var haft eftir Gunnari Braga:

„Málið hefur nokkrum sinnum verið á borði ríkisstjórnar og utanríkismálanefndar og ekki komið fram tillaga um að breyta um stefnu. Við þekktum hverjar útflutningstölurnar eru og hve miklir hagsmunir geta verið undir, það var farið yfir það,“ sagði Gunnar Bragi í samtali við Morgunblaðið, aðspurður hvort unnin hefði verið áhættumatsskýrsla um hvað væri í húfi ef Rússar settu viðskiptabann á Ísland.

„Munurinn á þessari ákvörðun og Íraksstuðningnum sem minnst er á í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins er að þetta var rætt í ríkisstjórn og samráð var haft við utanríkismálanefnd samkvæmt lögum,“ sagði ráðherra.

Í gær gerði Sigurður G. ummæli ráðherrans að umtalsefni á Facebook:

„Gunnar Bragi segir líka í viðtali við Mogga dagsins að viðskiptabannið hafi verið rætt í ríkisstjórn.

Sé horft til frétta af fundarhöldum ríkisstjórnar í sumar þá liggur það fyrir að ríkisstjórnin hefur ekki haldið fund í um 40 daga.

Gunnar Bragi virðist því vera sð segja ósatt um það að þetta nýjasta útspil hans í utanríkismálum hafi verið rætt í ríkisstjórn.

Fjölmiðlar hljóta að grennslast fyrir um sannleiksgildi orða utanríkisráherrans hjá öðrum ráðherrum, enda ljóst að ákvörðunin kann að leiða til þess að önnur ráðuneyti þurfi að leggjast í víking til að selja þá vöru sem Rússum var ætluð,“ skrifaði Sigurður G. á Facebook í gærmorgun.

Gunnar Bragi Sveinsson
Gunnar Bragi Sveinsson AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert