„Um mikla hagsmuni að ræða“

Utanríkismálanefnd Alþingis fundaði í morgun vegna deilunnar við Rússa.
Utanríkismálanefnd Alþingis fundaði í morgun vegna deilunnar við Rússa. mbl.is/Eggert

Enn ríkir mikil óvissa vegna ákvörðunar rússneskra stjórnvalda um að setja innflutningsbann á íslenska matvöru. Utanríkismálanefnd Alþingis fundaði um stöðuna í morgun. Formaður utanríkismálanefndar Alþingis segir að staðan sé alvarleg, snúin og um mikla hagsmuni fyrir Ísland sé að ræða.

„Við vorum að fá upplýsingar frá utanríkisráðuneytinu um vendingar síðustu daga; bæði hvað varðar innihald og áhrif þessara nýju ákvarðana Rússa og eins um þau samskipti sem hafa átt sér stað milli okkar stjórnkerfis og Rússa að undanförnu um þessi mál,“ segir Birgir Ármannsson, formaður utanríkismálanefndar, í samtali við mbl.is. 

„Menn gera sér auðvitað grein fyrir því að þarna er um mikla hagsmuni fyrir okkur að ræða og mikilvægt að skoða alla möguleika í því samhengi,“ segir hann jafnframt. 

Alvarleg staða

Aðspurður segir Birgir að enn ríki mikil óvissa varðandi ákvörðun Rússa og hvað hún þýði í raun og veru. Menn reyni nú að meta þá stöðu sem sé uppi í kjölfar ákvörðunar Rússa sem var kynnt í gær. 

„Þetta er auðvitað alvarleg staða og menn eru að reyna að meta það hvernig hægt er bregðast við með skynsamlegum hætti,“ segir Birgir ennfremur. 

Utanríkismálanefnd fundaði með fulltrúum atvinnulífsins, m.a. að úr sjávarútvegi, sl. mánudag vegna ástandsins og aðspurður gerir Birgir ráð fyrir því að fundað verði á ný með þeim, þ.e. nú þegar ákvörðun um innflutningsbann hefur verið tekin.

„Menn átta sig á því að þarna er um að ræða mjög snúna stöðu og við munum að sjálfsögðu halda umfjöllun um málið áfram á þeim grundvelli,“ segir Birgir. 

Ólíku saman að jafna

Spurður hvort atburðurinn hafi sett svartan blett á ríkjasamskipti Íslands og Rússlands segir Birgir: „Atburðir af þessu tagi eru alvarlegir. Auðvitað veitum við því líka athygli að gagnaðgerðir Rússa hafa hlutfallslega mjög mikil áhrif hér miðað við það sem gerist víða annarsstaðar, og eru í raun og veru miklu umfangsmeiri heldur en þær tiltölulega takmörkuðu aðgerðir sem Ísland hefur lýst stuðningi við,“ segir Birgir og vísar til þvingana sem Evrópusambandið, Bandaríkin og önnur vestræn ríki, með stuðningi Íslands, hafi beitt. Þær séu á tiltölulega afmarkaðar og snerti viðskipti með hernaðartengdar vörur, vörur til olíuvinnslu og tilteknar fjármagnshreyfingar og vegabréfsáritanir til tiltekinna einstaklinga.

„Eins og þetta kemur út þá hittir þetta okkur illa fyrir vegna mikilvægis Rússlands sem markaðar fyrir okkar sjávarafurðir,“ segir hann. 

Aðspurður segist Birgir styðja þær ákvarðanir sem íslensk stjórnvöld hafi tekið um þvingunaraðferðir gagnvart Rússum. Hann bætir við að gagnaðgerðir Rússa nú breyti ekki þeirri afstöðu. „Það hafa ekki komið fram tillögur í utanríkismálanefnd um að víkja frá þeim stuðningi,“ segir Birgir að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert