Nemendur í Kópavogi fá spjaldtölvur

Nemendur fá Apple iPad spjaldtölvur en sú ákvörðun var tekin …
Nemendur fá Apple iPad spjaldtölvur en sú ákvörðun var tekin að loknu ítarlegu matsferli þar sem margar gerðir spjaldtölva voru skoðaðar.

Nemendur í áttunda og níunda bekk í Kópavogi fá afhentar spjaldtölvur á morgun. Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs afhendir nemendum Hörðuvallaskóla fyrstu tækin. 

Tæplega 900 tæki verða afhent að þessu sinni en spjaldtölvuvæðing grunnskóla í Kópavogi hefst með þessum tveimur árgöngum.

Undanfarið hafa farið fram kynningarfundir fyrir foreldra í tengslum við afhendinguna spjaldtölva þar sem farið verður yfir ýmis hagnýt atriði, reglur um notkun tækjanna og aðra skilmála. Þá fá nemendur fræðslu um netöryggi og stafræna borgaravitund í tengslum við afhendinguna, segir í fréttatilkynningu frá Kópavogsbæ.

Allir kennarar í grunnskólum Kópavogs fengu afhentar spjaldtölvur í júní og sóttu margir þeirra námskeið í sumar til að kynna sér notkun spjaldtölva í kennslu. Með afhendingu spjaldtölvanna í áttunda og níunda bekk hefst innleiðing spjaldtölva í grunnskóla á mið- og unglingastigi í Kópavogi. Sjötti og sjöundi bekkur fær spjaldtölvur upp úr áramótum og síðustu tveir árgangar næsta haust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert