Gagnrýndi Ólaf Ragnar

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, segir forseta Íslands, Ólaf Ragnar Grímsson, hafa óþarfa áhyggjur af því að kosningar um stjórnarskrá samhliða forsetakosningum verði ólýðræðislegar. Segir hún kosningu samhliða fulltrúakosninga á borð við Forsetakosninga eða Alþingiskosninga vera „langbestu og tryggustu leiðina til að fá fólk á kjörstað.“

Birgitta flutti ræðu fyrir hönd Pírata við setningu 145. löggjafarþings í kvöld og hóf hún ræðuna á að gagnrýna staðhæfingar sem forsetinn lét falla í morgun.

Þá sagðist hún sannarlega ánægð að upplýsa forsetann um að þröng tímamörk og sparnaðarhvöt séu ekki þeir hvatar sem liggja að baki því að spyrða saman þessar tvær kosningar. „Hvatarnir eru einmitt fyrst og fremst hugsaðir til að tryggja góða þátttöku.“

Sagði hún forsetann hafa látið í veðri vaka að ekki sé vandað til verks og sagði hún forsetann hafa fært sig inn á „háskalegar og gerræðislegar brautir gagnvart þingræðinu í dag.“

„Undir því get ég ekki setið án þess að andmæla af fullum krafti,“ sagði Birgitta og bætti við að ljóst væri að einhver þyrfti að bjóða sig fram til að sinna hlutverki forseta sem sé annt um hið beina lýðræði og sé tilbúinn að sleppta tökum af málskotsréttinum til þjóðarinnar.

Líkti ræðu Sigmundar við barnagælu

Næstur í röðinni var forsætisráðherra. Sagði Birgitta að við lestur ræðu forsætisráðherra hafi sprottið henni í huga óskhyggjuleg barnagæla.

„Ég sá forsætisráðherra hæstvirtan ljóslifandi fyrir mér með pensil og teikniblað í myndlíkingu ljóðsins „Ég skal mála allan heiminn elsku mamma”,” sagði Birgitta. Sagði hún ræðuna endurspegla teiknimynd þar sem lita á yfir aðkallandi vandamál með fallegum orðum og litum.

„Fjárlög gefa ekki fyrirheit um að takist að leysa fjölþætt undirstöðumál heilbrigðiskerfisins, húsnæðiskerfisins, né þau óveðurský í alþjóðafjármálakerfum, né er slíkt að finna í þingmálaskránni,” sagði Birgitta.

Gott að vera óskrifað blað

Birgitta sagði það vera gott að vera óskrifað blað, líkt og hún sagðist vera að mati margra valdhafa. „Mér finnst gott að það sé þannig frekar en að vera þéttskrifað blað beggja megin eins og hefðbundin stjórnmálamenning er í huga margra.“

Segir hún Pírata fyrst og fremst skilgreina sig sem fólk sem vill mannúðlegra samfélag með því að tryggja borgaraleg réttindi okkar í lögum og í framkvæmd.

„Við Píratar ætlum að halda áfram að feta þá braut að fjalla um róttækar breytingar og leggja til lausnir í anda 21. aldarinnar og „sörfa“ í brimróti róttækra breytinga og sneiða hjá hinum lygnu fjörðum hefðbundinna stjórnmála,“ sagði Birgitta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka