„Oft býr dulbúin gæfa í áföllum“

Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, í kvöld.
Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, í kvöld. mbl.is/Styrmir Kári

„Stöndum að góðu en ekki lélegu. Stuðlum að réttlæti og berjumst gegn óréttlæti,“ sagði Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi í kvöld. Hann hvatti þingmenn til að snúa saman bökum og vinna saman.

Óttarr benti á, að kjörtímabilið væri nú hálfnað og því væri full ástæða fyrir þingmenn til að spyrja sig að því hvort þeir hafi gengið til góðs. Ljóst væri að margt mætti gera betur. Næstu tvö ár séu hins vegar óskrifað blað og þingmenn eigi enn möguleika á því að breyta í rétta átt. 

Hann sagði að það væri hættulegur ósiður að þröngva vilja sínum upp á þá sem eru annarra skoðunar í krafti valds eða meirihluta. Þessi aðferðafræði sé öngstræti sem leiði til stöðnunar. Eina leiðin tli sáttar til langs tíma sé samtal og samvinna allra. 

Hann segir að mál sem hafi verið unnin á breiðum grunni og í samráði hafi verið farsæl í þinginu og um þau hafi ríkt góð sátt. Fyrstu skrefin í afnámi hafta, sem voru samþykkt í sumar, hafi verið gott dæmi um slíka samvinnu.

Miklum tíma hefur verið sóað

„En við höfum líka sóað miklum tíma og óendanlegum kröftum í mál sem hafa komið inn án samráðs, mál sem hefur verið kastað eins og sprengjum og hafa sett allt í loft upp. Dæmi um það eru aðildarviðræðurnar við ESB og tillaga um virkjanir framhjá rammaáætlun. Það myndaðist engin sátt um þessi mál, hvorki inni á þingi né í þjóðfélaginu, Það var ekki gerð tilraun til þess að ná um þau sátt og það var aldrei möguleiki á neinni sátt. Sátt og traust er ekki eitthvað sem hægt er að panta eða heimta,“ sagði Óttarr.

Hann sagði að Björt framtíð væri stjórnmálaflokkur sem vildi gera gagn og standa fyrir umbótum. Umhverfi og mannréttindi væru flokknum hugleikin. Flokkurinn væri einnig stofnaður um betri vinnubrögð, langtímahugsun og um það að gera plan sem endist.

„Þó verkefnin séu mörg og flókin þá verðum við að gefa okkur tíma og/eða tóm til að leysa þau vel. Allar hendur á dekk,“ sagði Óttarr.

Ný hugsun vaknaði eftir hrun

Hann vísaði í tónlistarmanninn Rúnar Júlíusson sem sagði: „Það býr oft dulbúin gæfa í áföllunum.“ Óttarr sagði að það ætti að mörgu leyti við árin eftir hrun. Því á sama tíma og efnahagsáföllin dundu yfir og traust á stofnanir samfélagsins hrundi hafi ný hugsun sömuleiðis vaknað um aðrar leiðir, önnur gildi og aðra aðferðafræði.

Hann sagði, að mikil átök væru í íslensku samfélagi í dag. Átökin snúist ekki einvörðungu um áhrif eða völd, hægri og vinstri eða landsbyggð og höfuðborgarsvæði. Þessi átök snúist um grundvallarbreytingar. Um það hvort Íslendingar ætli að gera hlutina öðruvísi, á lýðræðislegri hátt, að byggja upp til framtíðar og stokka upp í alvörunni. 

Í lok ræðu sinnar ræddi Óttarr vanda flóttamanna og sagði það óþolandi tilfinningu að geta ekki gert meira til að hjálpa einstaklingum í neyð, einstaklingum sem séu að flýja til að bjarga lífi sínu og lífi barnanna sinna.

„Nú eru fleiri á flótta en nokkru sinni seinustu áratugi. Það er skylda okkar Íslendinga að gera betur en auðvitað þarf að tryggja að rétt og vel sé haldið utan um móttöku flóttamanna. Ég fagna ráðherranefnd um málefni flóttamanna. Við í Bjartri Framtíð erum boðin og búin til þess að gera það sem við getum til þess að hjálpa til og styðja við góð verk,“ sagði þingmaðurinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert