Fá leiðsöguhunda í annað sinn

Zören og Oliver
Zören og Oliver mbl.is

„Þeir bræður Zören og Oliver komu hingað til lands í vor frá Svíþjóð. Þeir eru tveggja og hálfs árs og eru af Labrador kyni eins og flestir leiðsöguhundar hér á landi. Zören verður afhentur Svanhildi Önnu Sveinsdóttur og Oliver verður leiðsöguhundur Lilju Sveinsdóttur. Zören verður búsettur á Akureyri og Oliver í Reykjavík.“

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga en miðstöðin mun afhenda Svanhildi og Lilju hundana tvo á fimmtudaginn en þær eru báðar að fá leiðsöguhund í annað skipti. Þær eru fyrstu leiðsöguhundanotendurnir hér á landi til að fá úthlutað öðrum leiðsöguhundi. Hundarnir sem þær fengu fyrst, þau Exo og Asíta, fara á eftirlaun eftir farsælt starf fyrir þær.

„Blindrafélagið hefur staðið dyggilega á bak við verkefnið með fjáröflun, meðal annars með sölu dagatala, en myndir í dagatali félagsins hafa verið af núverandi leiðsöguhundum, unghundum í þjálfun og hvolpum sem keyptir hafa verið í verkefnið,“ segir ennfremur. Þá munu félagar í Lions-hreyfingunni afhenda Blindrafélaginu að sama tilefni söfnunarfé Rauðu fjaðrarinnar sem safnað var í apríl og rennur að þessu sinni til styrktar leiðsöguhundum. Þá verður sérstök deild stofnuð innan félagsins fyrir leiðsöguhundanotendur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert