Ætlar að draga tillöguna til baka

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, á flokksstjórnarfundi Samfylkingar í dag.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, á flokksstjórnarfundi Samfylkingar í dag. mbl.is/Eva Björk

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri ætlar að draga tillögu um að Reykjavíkurborg sniðgangi vörur frá Ísrael til baka. Þetta kom fyrst fram í frétt RÚV. Borgarstjórinn segir að tillögunni verði breytt þannig að það komi skýrt fram að borgin muni aðeins sniðganga vörur sem framleiddar eru á hernumdum svæðum.

„Tillagan hefur verið skilin þannig að ætlunin hafi verið að sniðganga allar vörur frá Ísrael. Hugsunin var hins vegar að sniðganga aðeins vörur sem framleiddar væru á hernámssvæðinu,“ segir Dagur í samtali við mbl.is. 

„Það er mikilvægt að leiðrétta þetta. Ég átti gott samtal við borgarstjóra Kaupmannahafnar núna í hádeginu sem var mjög gagnlegt, en þau hafa farið í gegnum sömu umræðu hjá sér. Á nákvæmlega sama hátt voru mjög áberandi í fyrstu áhyggjur af því að borgin væri að sniðganga allar ísraelskar vörur,“ segir Dagur.

„Hann sagði mér að hann hefði þá stigið fram og áréttað þetta skýrt, bæði í fjölmiðlum og á fundi með sendiherra Ísraels. Það hafi skipt máli og ráðlagði hann mér eindregið að fylgja í þau fótspor. Hann ætlar að vera okkur innan handar.“

Aðspurður segist Dagur hafa fengið viðbrögð hjá sendiherra Ísraels gagnvart Íslandi, sem hefur aðsetur í Ósló. „Mér skilst að hann sé væntanlegur hingað og við munum hittast á fundi svo að ekkert sé misskilið í þessu.“

Hann segir viðbrögðin við ákvörðun borgarráðs hafa verið mun meiri en búist var við. „Það virðast til dæmis vera mun harðari viðbrögð við þessu heldur en þegar Ísland viðurkenndi sjálfstætt ríki Palestínu. Það held ég að hafi komið öllum á óvart.“

Dagur gerir ráð fyrir að fjallað verði um málið í borgarráði á fimmtudag. Aðspurður hvort að breytt tillaga muni þá líta dagsins ljós segir hann það ekki vera ráðgert.

„Ég hugsa að við látum nægja að draga hana til baka að sinni til að undirstrika að hún liggi ekki til grundvallar í samráðinu og útfærslunni sem fram undan er.“

Utanríkisráðuneytið hefur sent frá sér ályktun þar sem fullyrt er að ákvörðun borgarráðs brjóti í bága við lög og alþjóðasáttmála. Dagur segir að lögfræðingar Reykjavíkurborgar hafi farið yfir tillöguna áður en hún fór fyrir ráðið. 

„Ég á ekki von á því að tillagan í breyttu formi verði ólögmæt. Ef það koma fram sjónarmið þá förum við að sjálfsögðu yfir þau.“

Ekki nægur undirbúningur

Dagur sagði í samtali við mbl.is í gær að undirbúa hefði mátt tillöguna betur áður en hún var samþykkt. Björk Vilhelmsdóttir borgarfulltrúi lagði tillöguna fram í borgarstjórn á þriðjudag. Á sama fundi baðst hún lausnar. Til­lagan var samþykkt með meiri­hluta at­kvæða Samfylkingar, VG og Pírata en borg­ar­full­trú­ar Sjálf­stæðis­flokks­ins og Framsóknar og flugvallarvina greiddu at­kvæði gegn til­lög­unni.

Tillagan sem samþykkt var snýst um að fela skrif­stofu borg­ar­stjóra í sam­vinnu við inn­kaupa­deild að und­ir­búa og út­færa sniðgöngu Reykja­vík­ur­borg­ar á ísra­elsk­um vör­um meðan her­námi Ísra­els­rík­is á landsvæði Palestínu­manna var­ir.

Hún hefur vakið gríðarlega hörð viðbrögð víða og m.a. hafa íslenskar vörur verið teknar úr sölu í Bandaríkjunum vegna málsins.

Samþykktin var vanhugsuð

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina óskuðu í dag eftir aukafundi í borgarstjórn á þriðjudag. Þar ætla þeir að leggja fram eftirfarandi tillögu:

„Borgarstjórn samþykkir að draga til baka samþykkt borgarstjórnar frá 15. september 2015 um undirbúning og útfærslu á sniðgöngu Reykjavíkurborgar á ísraelskum vörum.“

Í greinargerð með tillögunni segir að hún verði lögð fram til að lágmarka þann skaða sem samþykkt meirihluta borgarstjórnar hefur haft í för með sér fyrir orðspor og viðskipti Íslands við önnur lönd. 

„Sveitarstjórnir eru eins og önnur stjórnvöld bundin af lögum. Í því felst að Reykjavíkurborg verður að haga stjórnsýslu sinni í samræmi lög og að ákvarðanir hennar mega ekki fara í bága við þau, þ. á m. lög um opinber innkaup, þar sem óheimilt er að mismuna fyrirtækjum á grundvelli þjóðernis eða af öðrum sambærilegum ástæðum,“ segir m.a. í greinargerðinni.

 „Samþykki Reykjavíkurborg að breyta innkaupastefnu sinni með bindandi hætti þannig að ísraelskir birgjar skuli sniðgengnir, samræmist það hvorki íslenskum lögum né ákvæðum í alþjóðlegum skuldbindingum alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) um opinber innkaup, sem Ísland er aðili að og Reykjavíkurborg og önnur sveitafélög eru bundin af.“

 Svo segir: 

 „Samþykkt meirihluta borgarstjórnar var því vanhugsuð og hefur þegar haft í för með sér afleiðingar til skaða fyrir íslenska þjóð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert