Vilja Laxnesssetur á Gljúfrasteini

Halldór Laxness hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels fyrir 60 árum.
Halldór Laxness hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels fyrir 60 árum. mbl.is/Ólafur K. Magnússon

Þingmenn allra flokka á Alþingi hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar um að hefja uppbyggingu Laxnessseturs á Gljúfrasteini í Mosfellsbæ. Leiðarljós Laxnessseturs verði að halda á lofti minningu Halldórs Laxness.

Fram kemur að Alþingi álykti að fela mennta- og menningarmálaráðherra í samvinnu við bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ og stjórn Gljúfrasteins að hefja uppbyggingu Laxnessseturs á  Gljúfrasteini í Mosfellsbæ. Leiðarljós Laxnessseturs verði að halda á lofti minningu Halldórs Laxness, veita fræðslu um verk hans og leggja áherslu á að Mosfells­sveit og -bær var hans heimabyggð. Þar verði miðstöð allrar þekkingar um Halldór Laxness. Laxnesssetur verði jafnframt bókmenntasetur þar sem aðstaða verði til rannsókna og fræðistarfa. 

Flutningsmenn tillögunnar eru þingmennirnir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Valgerður Gunnarsdóttir, Vilhjálmur Bjarnason, Katrín Jakobsdóttir, Helgi Hjörvar, Össur Skarphéðinsson, Óttarr Proppé, Róbert Marshall, Heiða Kristín Helgadóttir, Willum Þór Þórsson, Þorsteinn Sæmundsson, Birgitta Jónsdóttir. 

Fram kemur í greinargerð með frumvarpinu, að í ár séu 60 ár síðan Halldór hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels og af því tilefni sé tímabært að horfa til þess að byggja upp menningarhús. Landsvæði hafi þegar verið tryggt til að byggja Laxnesssetur með tengingu við heimili skáldsins á Gljúfrasteini.

„Ljóst er að Gljúfrasteinn stendur framarlega í flokki dýrmætra staða í íslenskri menningarsögu. Sú uppbygging sem þegar hefur átt sér stað er um margt til mikillar fyrirmyndar og hefur starfsemin svo sannarlega þegar sannað gildi sitt,“ segir ennfremur.

„Það er tilgangur þessarar þingsályktunartillögu að Laxnesssetur á Gljúfrasteini í Mosfellsbæ verði menningarsetur með megináherslu á líf og starf Halldórs Laxness en verði jafnframt alhliða menningarsetur með áherslu á bókmenntir, rannsóknir, fræðslu og miðlun,“ segir jafnframt.

„Ljóst er að Gljúfrasteinn stendur framarlega í flokki dýrmætra staða …
„Ljóst er að Gljúfrasteinn stendur framarlega í flokki dýrmætra staða í íslenskri menningarsögu,“ segir í tillögunni. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is