Eldgosin trufluðu varp spóans

Spói situr á staur
Spói situr á staur Ómar Óskarsson

Áætlað er að um 40% allra spóa í heiminum komi til Íslands til að verpa. Varpstofninn er talinn vera um 250.000 pör og sé miðað við að hvert par komi að meðaltali upp einum unga á sumri þá fara héðan 750.000 spóar til vetursetu í Vestur-Afríku.

„Ísland er almennt mikil vaðfuglaparadís,“ segir Borgný Katrínardóttir líffræðingur, sem starfar við fuglarannsóknir hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Hún rannsakaði ásamt fleirum áhrif eldgosa á spóavarp og viðkomu spóans. Ritrýnd grein um rannsóknina birtist í júlí í sumar. Eins birtist blogg um spóarannsóknina á vef Breska fuglafræðingafélagsins nú í september.

Eldgos olli uppnámi

Borgný hóf spóarannsókn sína árið 2009 á Suðurlandi. Vorið eftir gaus Eyjafjallajökull og spjó ösku og eimyrju yfir rannsóknarsvæðið að hluta. Svo fylgdi Grímsvatnagosið 2011 í kjölfarið.

„Gosið í Eyjafjallajökli setti rannsóknina í uppnám, þar sem aðalsvæðin mín voru staðsett mjög nálægt eldfjallinu,“ sagði Borgný. Raunin varð samt sú að áhugaverðar niðurstöður fengust um áhrif eldgosaöskunnar á viðkomu spóans. Borgný sagði að líklega hefði askan valdið því að tímabundið hrun hefði orðið í ýmsum skordýrastofnum sem spóaungarnir reiddu sig á og þeir drepist af þeim sökum.

Spóaungarnir verða sjálfir að finna sér fæðu frá því þeir koma úr eggjunum. Foreldrarnir vísa þeim ef til vill á svæði þar sem eitthvað ætt er að finna, gæta þeirra og hlýja þeim á meðan þeir eru litlir. Borgný sagði veiðieðli spóaunganna vera mjög sterkt. „Ég var að mæla nýklakinn unga inni í bíl og setti hann upp við bílrúðuna þar sem voru flugur á vappi. Hann fór strax að pikka í þær. Það var greinilega innbyggt í hann að byrja strax að kroppa í það sem hreyfist, enda fara ungarnir úr hreiðrinu mjög fljótlega eftir klak og þurfa þá að leita sér að fæðu,“ sagði Borgný.

Sumurin 2010 og 2011, þegar gaus í Eyjafjallajökli og sumarið eftir, gekk spóunum betur að koma upp ungum eftir því sem þeir urpu fjær eldfjallinu. Borgný sagði að svo virtist sem spóunum gengi verr við varpið sumarið 2011 en 2010. Seinna vorið var kalt og mörg paranna reyndu þá ekki einu sinni að verpa. Ástandið lagaðist hins vegar fljótlega eftir þessi tvö sumur. Nýleg grein hefur líka sýnt fram á að mest er af vaðfuglum á áhrifasvæðum eldfjallanna en næringarefni í öskunni virka sem áburður og hafa áhrif upp alla fæðukeðjuna. Langtímaáhrifin eru því jákvæð þótt skammtímaáhrifin geti verið slæm.

Kindur og hross rændu eggjum

Rannsóknin leiddi í ljós að talsvert mikið afrán var á spóaeggjum. Þar komu þekktir eggjaræningjar við sögu, eins og kjóar og tófur. Það vakti meiri undrun þegar grasbítar á borð við sauðfé og hesta sáust éta egg. Á tveimur aðalathugunarsvæðunum, sumurin 2009 og 2010, var 126 af 197 eggjum rænt. Notaðar voru sjálfvirkar myndavélar til að fylgjast með nokkrum hreiðrum og náðust myndir af 13 afránsatburðum (þegar einu eða fleiri eggjum var rænt). Sökudólgarnir voru af ýmsum tegundum en í sjö tilfellum voru kindur að verki og tvisvar sinnum hross.

Borgný bendir á að spóinn sé langlífur. Hvert par þarf því ekki að koma upp ungum á hverju ári til að stofninn haldist stöðugur.

Spóaungarnir fara héðan að hausti til Vestur-Afríku og koma ekki aftur fyrr en tveggja ára í fyrsta lagi. Þá eru fuglarnir orðnir kynþroska og geta hafið varp. Elsti spói sem vitað er um náðist 24 árum eftir að hann hafði verið merktur. Sá var enn verpandi og var því orðinn að minnsta kosti 26 ára.

Losa sig við ónýta karla

Spóar halda sig yfirleitt við sama maka. Borgný segir þó að hugsanlega séu meiri líkur á skilnaði ef varp parsins gengur illa. „Ég fylgdist með karlfugli sem aldrei gekk neitt hjá og sá var alltaf kominn með nýja kerlingu á hverju vori. Honum virtist ekki haldast á þeim,“ sagði Borgný.

Pörin, og þá sérstaklega karlfuglarnir, halda almennt mikla tryggð við óðul sín og mæta á þau ár eftir ár. Borgný sagði að yfirleitt væri hægt að ganga að fuglunum vísum á svipuðum slóðum svo aðeins skeikaði fáeinum tugum metra á staðsetningu hreiðranna ár frá ári.

Eldgos í Eyjafjallajökli
Eldgos í Eyjafjallajökli Ragnar Axelsson
Spói við Mývatn
Spói við Mývatn Ómar Óskarsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »