Vilja heimila staðgöngumæðrun og líknardráp

Frá landsfundi Sjálfstæðisflokks.
Frá landsfundi Sjálfstæðisflokks. mbl.is/Árni Sæberg

Sjálfstæðisflokkurinn vill heimila staðgöngumæðrun, leyfa andlát með aðstoð og að blóðgjafar séu metnir á grundvelli heilsufars óháð kynhneigð. Þetta er meðal þess sem kemur fram í ályktun landsfundar um velferðarmál.

Í ályktuninni segir m.a. að mæta þurfi vaxandi þörf fyrir heilbrigðisstarfsfólk í heilbrigðiskerfinu og auka aðsókn ungs fólks í greinar innan þess. Þá þurfi að koma í veg fyrir útstreymi mannauðsins úr landinu.

Sjálfstæðismenn vilja að horft verði til fíknar sem heilbrigðisvanda, ekki löggæsluvanda, og að úrræði verði sköpuð fyrir fíkla „með skaðaminnkun að leiðarljósi svo sem með eflingu nálaskiptaverkefna og uppbyggingu verndaðra neyslurýma að fyrirmynd Svisslendinga.“

Landsfundurinn ályktar að mikilvægt sé að efla Landspítala við Hringbraut með áframhaldandi uppbyggingu og bættri aðstöðu. Samhliða uppbyggingu verði aðferðir við fjármögnun sjúkrahúsa skoðaðar.

Þá segir í ályktuninni að Sjálfstæðisflokkurinn vilji auka forræði kvenna yfir eigin líkama og heimila staðgöngumæðrun á þeim grundvelli. Einnig þurfi að hefja umræðu um hvort fólki með lífsgæðahamlandi, banvæna sjúkdóma eigi að gefast kostur á andláti með aðstoð fagaðila.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert