89% breytinga ungra sjálfstæðismanna samþykktar

Frá setningu landsfundar í gær.
Frá setningu landsfundar í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á landsfundi í dag störfuðu allar málefnanefndirnar og voru lagðar fram hátt í 100 breytingartillögur frá ungum sjálfstæðismönnum.

89% tillagna ungra sjálfstæðismanna hlutu brautargengi í nefndum og munu því verða aðaltillögur nefndanna fyrir fundinum á morgun.

Tillögur ungra fólu meðal annars í sér aðskilnað ríkis og kirkju, afnám refsistefnu í fíkniefnamálum og litið verði á fíkn sem heilbrigðismál ekki löggæsluvanda, lægri kosningaaldur, bætt skattaumhverfi fyrir nýsköpunarfyrirtæki, staðgöngumæðrun, lögfestingu NPA, netfrelsi, að losa landbúnaðinn við fjárstuðning ríkisins, afnám lágmarksútsvars, að tekið sé til gagngerrar endurskoðunar hvernig tekið er á kynferðisbrotamálum og að ekki ætti að leggja almannafé í stóriðju sem ekki skilar arðsemi fyrr en eftir langan tíma. Fjöldi annarra mála ungra sjálfstæðismanna fóru í gegn.

Þá fengu ungir sjálfstæðismenn samþykkt ýmsar úrbætur í málefnum hinsegin fólks. Þar má nefna að blóðgjafar verði metnir á forsendum heilsufars óháð kynhneigð, mannréttindi trans og intersex fólks, jöfn réttindi samkynhneigðra foreldra og að ekki yrði talað um konur og karla þar sem það útilokar hið þriðja kyn. 

Ungir sjálfstæðismenn fjölmenna á landsfundinn og telja mikilvægt að sjálfstæðismenn hlusti á raddir unga fólksins; enda sjaldan verið mikilvægara að huga að framtíðinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina