Alvarlegar rakaskemmdir á húsi OR

Höfuðstöðvar OR. Skemmdirnar uppgötvuðust í lok ágúst. Sýni voru tekin …
Höfuðstöðvar OR. Skemmdirnar uppgötvuðust í lok ágúst. Sýni voru tekin og í þeim fundust sveppagró. mbl.is/Árni Sæberg

Alvarlegar rakaskemmdir hafa komið í ljós á húsnæði Orkuveitu Reykjavíkur að Bæjarhálsi 1. Unnið er að mati á umfangi þeirra.

Fram kemur í tilkynningu á vef OR, að skemmdirnar hafi uppgötvast í lok ágúst. Sýni voru tekin og í þeim fundust sveppagró. Starfsfólk var þá upplýst og það látið vita af því að sýni yrðu tekin víðar til að kanna umfang vandans. Jafnframt var hluti starfseminnar færður til í húsinu.

Þá segir, að OR hafi fengið til ráðgjafar sérfræðinga í þessum efnum frá verkfræðistofunni Eflu. Nú sé unnið að áætlun um það hvernig viðgerð verði háttað.

„Undirbúningur viðgerðanna og viðgerðirnar sjálfar munu taka nokkuð langan tíma og röskun verður á starfsemi í húsinu á meðan. Þegar í stað verður gripið til aðgerða til að draga úr hugsanlegum áhrifum á heilsu starfsfólks.

Árið 2013 var húsnæðið skoðað með tilliti til sveppagróðurs af þessu tagi. Þá fundust engin gró.

Við skoðunina nú kom einnig í ljós að plötur á ytra byrði hússins hafa losnað og því verður farið yfir festingar þeirra allra á næstu vikum,“ segir í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert