„Vil hafa það sem sannara reynist“

Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins. Skjáskot af Althingi.is

„Ég hef oft skipt um skoðun og vil hafa það sem sannara reynist. Og þegar það koma fram góð og vönduð rök, eins og hafa komið fram hjá samtökunum Betri Landspítali á betri stað, og ég kynni mér þau rök, sem ég hvet háttvirtan þingmann til að gera, þá finnst mér þau ekki falla úr gildi þó þau komi seint fram. Þekking og upplýsingar sem eru betri og skýrari.“

Þetta sagði Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, í umræðum um störf þingsins í dag í svari við fyrirspyrn frá Kristjáni L. Möller, þingmanni Samfylkingarinnar. Kristján gagnrýndi Frosta fyrir að vera einn þeirra sem skrifaði undir yfirlýsingu frá samtökunum sem birtist í blöðum og benti á að þingmaðurinn hefði áður samþykkt fjárframlög til uppbyggingar Landspítala við Hringbraut með samþykkt fjárlaga 2015 og frumvarps til ríkisfjármála. Frosti væri þannig að skrifa undir áskorunina á sjálfan sig.

„Ég hef gagnrýnt mjög þessi samtök fyrir að fara svo seint af stað með þessa andstöðu sína þar sem búið er að taka þessa ákvörðun af fagfólki sem ég styð vegna þess að ég tel að þau hafi best vit á því að ákveða þetta. En það er sem sagt sagt já í vinnunni en skorað á sjálfan sig að segja nei. Ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að mér þykir þetta hættulegur og ljótur leikur, allt að því lýðskrum, allt að því lýðskrum,“ sagði Kristján.

Mikið breyst frá því að Hringbrautin taldist best

„Mér finnast rökin afskaplega sannfærandi og eina krafan sem hérna er verið að fara fram á er að það fari fram hlutlægt, óháð mat á því hvar best sé að staðsetja Landspítalann til langrar framtíðar. Við erum ekki að byggja til fimm ára eða tíu ára, við erum að byggja til 100 ára,“ sagði Frosti. Um væri að ræða fjárfestingu upp á 60-100 milljarða króna héðan í frá. Þá ættu tugir milljarða eftir að fara í rekstur Landspítalans. Því skipti máli hvernig haldið væri á málum.

„Ég held að það sé líka mjög mikilvægt að mikið hefur breyst á þeim áratugum sem hafa liðið síðan þessi staður þótti sá besti. Ég ætla ekki að draga í efa að staðurinn við Hringbraut var afskaplega ákjósanlegur á þeim tíma sem spítalinn var reistur, en síðan hefur mjög mikið breyst í skipulagi borgarinnar og dreifingu byggðarinnar. Það er gríðarlega dýrt að byggja við gamalt og úrelt húsnæði, bæði dýrt og tímafrekt og veldur miklu raski við núverandi starfsemi,“ sagði hann ennfremur.

Mjög óhagkvæmt yrði að vera með starfsemi spítala undir 20 þökum með löngum göngum á milli eins og raunin yrði miðað við núverandi áform. „Það verður mikið lýti á bæjarmyndinni að vera með svona ferlíki á þessum stað sem fletur sig út yfir borgina. Ég held að útreikningarnir sem samtökin hafa lagt fram séu tiltölulega sannfærandi og kalli á frekari skoðun. Það væri ábyrgðarhluti ef við þingmenn mundum ekki hlusta á slíkar áskoranir. Ég skora enn og aftur á þingið og þá sem fara með málið að láta fara fram slíkt mat á staðsetningu spítalans.“

Kristján Möller, þingmaður Samfylkingarinnar.
Kristján Möller, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert