Fjöldi Íslendinga flytur úr landi

Það er einkum ungt fólk sem hleypir heimdraganum og leitar …
Það er einkum ungt fólk sem hleypir heimdraganum og leitar betri kjara erlendis. mbl.is/Styrmir Kári

Útlit er fyrir að þetta ár verði ár eins mesta brottflutnings íslenskra ríkisborgara á síðari tímum.

Þannig fluttu 3.120 íslenskir ríkisborgarar frá landinu á fyrstu níu mánuðum ársins, eða um 1.130 fleiri en fluttu til landsins á tímabilinu, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

Samkvæmt gagnagrunni Hagstofu Íslands hafa brottfluttir íslenskir ríkisborgarar umfram aðflutta aðeins verið marktækt fleiri í fimm skipti síðan árið 1961. Það var árin 1970, 1995 og 2009 til 2011.

 Það einkennir þessi ár að þau komu í kjölfar kreppuára á Íslandi.

Þannig kemur fram í greiningu Seðlabankans að kreppan árin 1968-69 hafi byrjað með efnahagssamdrætti í kjölfar aflasamdráttar. Árin 1989-94 voru erfiðleikaskeið sem hófst með samdrætti í afla, einkum þorskafla. Kreppuárin 2009-11 komu í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Nú er hins vegar uppgangur á Íslandi og spáir Seðlabankinn í nýjum Peningamálum „áframhaldandi bata á vinnumarkaði með minnkandi atvinnuleysi og fjölgun starfa og heildarvinnustunda“.

Þróuninni er öfugt farið hjá erlendum ríkisborgurum. Á fyrstu níu mánuðum ársins fluttu 1.860 fleiri erlendir ríkisborgarar til landsins en frá því, eða hér um bil jafnmargir og allt árið í fyrra. Talan verður líklega talsvert hærri þegar árið verður gert upp og má nefna að á fjórða ársfjórðungi í fyrra fluttu 480 fleiri erlendir ríkisborgarar til landsins en frá því.

„Þetta eru ekki kreppuflutningar. Það er eitthvað djúpstæðara á ferðinni núna,“ segir Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands. Vísbendingar eru um að margt háskólafólk flytji úr landinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert