Óánægja með jóladagatal RÚV

Tímaflakkið er á dönsku með íslenskum texta.
Tímaflakkið er á dönsku með íslenskum texta. Skjáskot af RÚV

Miklar umræður hafa skapast á Facebook í kvöld vegna jóladagatals sjónvarpsins sem hófst á RÚV í kvöld. Vandamálið við jóladagatalið, sem ber titilinn Tímaflakkið, eða Tidrejsen, er að það er á dönsku og textað með á íslensku. Margir hafa bent á þá staðreynd að markhópur jóladagatalsins eru börn, oft niður í 2-3 ára og kunna því í fæstum tilvikum dönsku. Einnig er það erfitt fyrir börnin sem eru byrjuð að læra að lesa að fylgjast með og lesa textann á sama tíma.

Lýsa margir yfir vonbrigðum sínum á því að ekki hafi verið ákveðið að talsetja danska jóladagatalið eða sýna einfaldlega gamalt íslenskt jóladagatal. Segjast margir vera einfaldlega sárir út í RÚV.

Þjóðþekktir einstaklingar tjáði sig um málið, eins og til dæmis lögreglumaðurinn Birgir Örn Guðjónsson eða Biggi lögga. Sagði hann Jóladagatal sjónvarpsins hafa verið part af aðventunni eins lengi og hann man eftir sér. Í dag, líkt og síðustu ár, biðu börnin mín spennt fyrir framan sjónvarpið eftir jóladagatalinu 2015. Það var mikil sorg þegar í ljós kom að það er á dönsku þetta árið en ekki með íslensku tali eins og venjulega,“ skrifaði Birgir.

Leikarinn Jóhannes Haukur Jóhannesson sagði jafnframt að danska talið hlyti að vera mistök.

„Er RÚV í alvöru að sýna danskt jóladagatal fyrir íslensku börnin án þess að láta talsetja það?!? Þetta eru örugglega einhver mistök, vitlaus fæll settur í loftið eða eitthvað svoleiðis. Annað er bara svo kjánalegt eitthvað,“ skrifaði Jóhannes.

Á vef RÚV kemur fram að Tímaflakkið segi sögu hinnar 13 ára Sofie sem á sér þann draum heitastan að sameina fjölskyldu sína um jólin, en foreldrar hennar höfðu skilið nokkru áður. Með aðstoð tímavélar ferðast Sofie aftur í tímann þar sem hún ætlar að hafa áhrif á örlagavefinn, en þegar þangað er komið mætir hún óvæntum hindrunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina