Hundruð milljóna í ráðgjafarstörf

mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Varið hefur verið samtals rúmlega 334 milljónum króna til kaupa á sérfræði-, ráðgjafar- og kynningarstörfum frá upphafi árs 2014 fyrir velferðarráðuneytið og mennta- og menningarráðuneytið. Þetta kemur fram í svörum Eyglóar Harðardóttur félags og húsnæðismálaráðherra, Illuga Gunnarssonar mennta- og menningarmálaráðherra og Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra við skriflegri fyrirspurn Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, sem birt voru í dag.

„Kostn­aður vegna kaupa á sérfræði-, ráðgjafar- og kynningarþjónustu fyrir velferðarráðuneytið á vegum félags- og húsnæðismálaráðherra frá upphafi árs 2014 til og með 31. október 2015 samkvæmt túlkun ráðuneytisins er að fjárhæð 129.505.664 kr. Að auki er sam­eigin­legur kostn­aður sem fellur á ráðuneytið á tímabilinu og kemur hann fram í svari heilbrigðisráðherra,“ segir í svari Eyglóar en stærsta einstaka greiðslan var til KPMG ehf. fyrir aðstoð við tillögu- og frumvarpsgerð vegna framtíðarskipan húsnæðismála eða tæpar 25 milljónir króna.

„Á tímabilinu 1. janúar 2014 til 31. október 2015 hefur ráðuneytið greitt samtals 124.954.610 kr. fyrir sérfræði-, ráðgjafar- og kynningarstörf sem skiptast þannig: Sérfræðistörf 99.857.265 kr., ráðgjafarstörf 3.348.887 kr. og kynningarstörf 21.748.458 kr.,“ segir í svari Illuga en stærsta einstaka greiðslan þar var 11,6 milljónir til LC ráðgjafar ehf. vegna verkefnis um læsi.

„Kostn­aður vegna kaupa á sérfræði-, ráðgjafar- og kynningarþjónustu fyrir velferðarráðuneytið á vegum heilbrigðisráðherra frá upphafi árs 2014 til og með 31. október 2015 samkvæmt túlkun ráðuneytisins er að fjárhæð 77.970.633 kr. Að auki er sam­eigin­legur kostn­aður heilbrigðisráðherra og félags- og húsnæðismálaráðherra á tímabilinu að fjárhæð 1.779.914 kr. sem fellur undir velferðarráðuneytið,“ segir í svari Kristjáns en stærsta einstaka greiðslan þar var til Íslenska skipafélagsins, rúmar 14,7 milljónir króna, vegna verkefnastjórnar verkefnisins „Betri heilbrigðisþjónusta“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert