Munu fylgjast með verði á fatnaði

Tollar voru lagðir niður um áramótin en samkvæmt útreikningum verðlagseftirlits …
Tollar voru lagðir niður um áramótin en samkvæmt útreikningum verðlagseftirlits ASÍ á verð á fatnaði að lækka um 7,8% mbl.is/Ómar Óskarsson

Kristjana Birgisdóttir, verkefnastjóri verðlagseftirlits ASÍ, segir að verðlagseftirlitið muni fylgjast sérstaklega með verðbreytingum á fatnaði og skóm í kjölfar þess að allir tollar, að undanskyldum verndartollum á landbúnaðarvörum, voru afnumdir nú um áramótin. 

Eftirlitið mun fara fram í gegnum verðlagsvísitölu fatnaðar en Kristjana segir nær ómögulegt skoða verðbreytingar á vettvangi þar sem ekki sé hægt að bera saman ólíkar tegundir fatnaðar s.s. vetrarfatnað og sumarfatnað. Kristjana segir að samkvæmt hennar útreikningum eigi verð á fötum og skóm að lækka um 7,8% í kjölfar tollafnámsins.

Þá segir hún fata- og skómarkaði erfiða þegar kemur að verðlagseftirliti sökum þess að útsölur valdi miklum verðsveiflum í janúar og yfir sumarið. 

Á síðasta ári fylgdist verðlagseftirlitið sérstaklega með verðbreytingum á raftækjum, byggingarvörum og varahlutum þegar vörugjöld voru lögð niður og segir Kristjana það hafa gefist nokkuð vel en auk þess fylgdist verðlagseftirlitið með verðbreytingum tengdum afnámi sykurskattsins. „Það gekk vel í níu mánuði en þá vorum við farin að sjá ný vörunúmer,“ segir hún en eftirlitið hefur það fyrir reglu að bera einungis saman verð á sömu vörunni á milli tímabila. 

Niðurstöður eftirlitsins frá því í fyrra segir hún vera blandaðar. Hún segir að verðlækkanir á byggingarvörum hafi ekki skilað sér, varahlutir séu byrjaðir að lækka, heimilistækin hafi skilað sér að mestu leyti þó að með styrkingu krónunnar hafi átt að eiga sér stað enn meiri lækkanir. Hvað sykurskattinn varðar segir Kristjana að lækkanir hafi skilað sér á hreinni vöru þ.e. hreinum sykri í matvöruverslunum en ekki á unninni vöru s.s. sælgæti og sætindum. 

Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, segir að samtökin hafi ekki burði til þess að fylgjast nákvæmlega með verðbreytingum en að þau muni þó fylgja eftir ábendingum sem þeim berist um að verslanir séu ekki að lækka verð. Hann hvetur jafnframt neytendur til þess að fylgjast vel með verðbreytingum og senda ábendingar til samtakanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert