Frá Hollywood til Dunhaga

Lady Gaga hlaut Golden Globe verðlaun fyrir hlutverk sitt í …
Lady Gaga hlaut Golden Globe verðlaun fyrir hlutverk sitt í American Horror Story: Hotel. Hún þakkaði Uppendahl í þakkarræðu sinni. AFP

Tveir reynsluboltar í kvikmyndaiðnaðinum eru á leið til Íslands í vor til þess að halda námskeið í handritagerð hjá Endurmenntun Háskóla Íslands. Þau Mary Kate O’Flanagan og Michael Uppendahl eru úrvalsfólk í sínu fagi en Uppendahl hefur m.a. komið að gerð þátta á borð við American Horror Story og Glee.

Kristín Einarsdóttir stendur að komu þeirra O’Flanagan og Uppendahl til Íslands en hún er sjálf viðloðin kvikmyndaiðnaðinn ásamt manni sínum, Richard Scobie. Þau eru búsett í Dublin í Írlandi.

„Ég og maðurinn minn erum bæði tengd kvikmyndaiðnaðinum. Hann sem handritshöfundur og leikstjóri og ég verið framleiðandi, auk þess sem hef verið að skrifa handrit sjálf,” segir Kristín í samtali við mbl.is. „Maðurinn minn er menntaður í faginu frá The National Film School of Ireland auk þess sem hann hefur starfað í faginu í Hollywood. Við þekkjum því gríðarlega mikið af fólki í iðnaðinum um allan heim. Að auki rek ég ferða- og viðburðarþjónustufyrirtækið Ireland Iceland Travel and Event Management í Dublin. “

Lengi má gott bæta

Að sögn Kristínar leitaði O’Flanagan til hennar með þá ósk að fara með masterclass í handritsgerð til Íslands. „Hún hefur verið áhugasöm um íslenska kvikmyndagerð og fylgst vel með. Íslendingar eru um þessar mundir að vinna stórvirki í faginu og íslensk kvikmyndagerð hefur sjaldan verið í eins miklum blóma. Styrkur íslendinga er mikill, þegar kemur að kvikmyndagerð og gerð sjónvarpsefnis, en lengi má gott bæta,“ segir Kristín.

Þegar hún og O‘Flangan fóru að ræða saman barst félagi þeirra, bandaríski leikstjórinn Michael Uppendahl, í tal.

„Michael er náttúrulega gríðarlegur reynslubolti, er kemur að leikstjórn sjónvarpþátta og við Mary Kate vorum sammála um að það að fá hann með myndi vera eitthvað sem myndi vera lyftistöng fyrir íslenska iðnaðinn, þar sem við erum farin að selja og framleiða kvikmyndir og sjónvarpsefni ætlað erlendum markaði,“ segir Kristín.

Tvisvar unnið Evrópuverðlaun

Eins og fyrr segir eru bæði O'Flanagan og Uppendahl úrvalsfólk í sínu fagi. O'Flanagan er margverðlaunuð bæði fyrir handritaskrif og einnig sem sagnameistari. Hún er einn aðalkennarinn við The National Film School of Ireland, auk þess sem hún kennir fagið um allan heim. Að sögn Kristínar starfar O'Flanagan mikið með Lisa Albert sem er einn af handritshöfundum Mad Men og svo eru hún og systir hennar Rachel O'Flanagan, sem er kunnur írskur kvikmyndaframleiðandi, gott teymi og kenna saman um allan heim auk þess að reka ráðgjafafyrirtæki sem kvikmyndagerðamenn geta leitað til.  

„O'Flanagan hlaut kennaraþjálfun sína hjá David Howard, margverðlaunuðum handritshöfundi og skapara The Tools of Screenwriting og How to Build a Great Screenplay,“ segir Kristín.  „Mary Kate hefur tvisvar unnið Evrópuverðlaun fyrir handritsskrif sín og skrifar þar að auki smásögur og kemur reglulega fram á The Moth sögustundunum sem haldnar eru um heim allan.“

Leikstýrt American Horror Story og Mad Men

Þá býr Uppendahl einnig  yfir mikilli reynslu. Hann hlaut leikhúsþjálfun sína við hinn virta USC Háskóla í Suður Kaliforníu og þjálfun í sjónvarpsleikstjórn í Hollywood.

„Michael er í dag einn eftirsóttasti sjónvarpsleikstjóri í heiminum,“ segir Kristín. „Hann hefur unnið að gerð og leikstýrt þáttum á borð við American Horror Story, Weeds, The Walking Dead, Shamelss, Glee, Scream Queens, Mad Men og Fargo.“

Að sögn Kristínar er Uppendahl mikið bókaður næstu árin og önnum kafinn maður. „En hann stökk á þetta tækifæri að fá að koma og setjast niður með íslensku kvikmyndagerðarfólki og jafnvel fá að vera þátttakandi í að efla kvikmyndaiðnaðinn á okkar litlu eyju, sem þó hefur á síðustu árum verið svo sýnileg meðal kvikmyndagerðarfólks um gervallan heim,“ segir Kristín.

Mun nýtast öllum innan fagsins

Aðspurð segir Kristín að þetta námskeið sé fyrir alla þá sem á einhvern hátt koma nærri kvikmyndagerð og sjónvarpi eða langar til að starfa innan þess geira. „Námskeiðið mun nýtast framleiðendum, handritshöfundum, leikstjórum, klippurum og svona gæti ég talið upp öll starfsheiti innan fagsins,“ segir Kristín.

Námskeiðið stendur í þrjá daga, 19.-21. maí, og er kennt frá klukkan níu á morgnanna til klukkan 17. Á námskeiðinu munu þátttakendur skoða hvernig sögur virka á áhorfendur bæði á stóru tjaldi sem og litlu tjaldi. O‘Flanagan mun fara í gegnum efni sérhannað fyrir handritshöfunda, framleiðendur og leikstjóra. „Sú nálgun sem hún beitir miðar að að því að fá allt sköpunarteymið til að sjá sömu heildarmyndina og vinna í takt að sama takmarkim“ segir Kristín. Uppendahl mun ræða um hvernig hann í sinni vinnu færir sögu frá handriti yfir á skjáinn og mun að auki veita þátttakendum innsýn í samvinnuferlið að sögn Kristínar.

Einnig verður farið í handritsþróun, persónusköpun, aðgerðargreiningu og undirbúning, sköpun og markaðsáhrif. Eftir að námskeiði lýkur, þá eiga þátttakendur þess kost að bóka áframhaldandi leiðsögn sérfræðinganna og mun sú ráðgjöf fara fram í gegnum Skype.

Kostnaði haldið í lágmarki

Þátttökuverð á námskeiðið er 249.900 í snemmskráningu en 299.900 síðustu tíu dagana fyrir námskeiðið. Kristín segir að kostnaði sé haldið í algjöru lágmarki.

„Michael eins og nefnt er gríðarlega bókaður. Hann hefur nýlokið tökum á American Horror Story og þakkaði Lady Gaga honum sérstaklega fyrir hans þátt í því verki, nú á nýafstaðinni Golden Globe verðlaunahátíð, þar sem hún vann verðlaun fyrir besta kvenhlutverk. Það sama á við um Mary Kate. Hún er bókuð í kennslu nokkur ár fram í tímann,“ segir Kristín.

„Hvorki Michael né Mary Kate eru með einhverja stjörnustæla þegar kemur að því að taka laun eða annað fyrir þetta námskeið, en það gefur auga leið að þegar tveimur jafn þekktum sérfræðingum er flogið til landsins til að kenna á þriggja daga masterclass, þá fylgir því ákveðin kostnaður,“ segir Kristín. 

Einstakt námskeið í hæsta gæðaflokki

Kristín á fastlega von á því að fólk sem starfar í kvikmynda- og sjónvarpsiðnaðinum, sem og einstaklingar sem hafa hug á því að nema eða starfa við fagið, taki námskeiðinu fagnandi.

„Nú þegar íslenski kvikmynda og sjónvarpsiðnaðurinn er á fleygiferð upp metorðastigann og hefur fangað athygli heimsbyggðarinnar, þá er það kærkomið að fá að nema af reynslu og visku tveggja reynslumikilla sérfræðinga sem þekkja svo vel til í sjónvarps og kvikmyndamarkaðnum bæði í Evrópu og Ameríku, auk þess sem þau eru hámenntaðir fagmenn hvor á sínu sviði,“ segir Kristín og bætir við að þetta verði einstakt námskeið í hæsta gæðaflokki.

Segir hún jafnframt það stórkostlegt að fá að vinna að því að gera það að veruleika, með dyggri aðstoð Endurmenntunar Háskóla Íslands. „Það eitt setur enn meiri gæðastimpil á þetta námskeið,“ segir Kristín.“

„Við Íslendingar höfum ekki áður haft tækifæri til að hlusta á sambærilega sérfræðinga innan kvikmynda- og sjónvarpsiðnaðarins miðla til okkar af þekkingu og reynslu sinni, að minnsta kosti ekki hér á okkar heimavelli. Svo nú er tækifærið.“

Kristín og maður hennar Richard Scobie.
Kristín og maður hennar Richard Scobie. Mynd úr einkasafni
Michael Uppendahl hefur unnið að þáttunum American Horror Story, Weeds, …
Michael Uppendahl hefur unnið að þáttunum American Horror Story, Weeds, The Walking Dead, Shamelss, Glee, Scream Queens, Mad Men og Fargo. Af Wikipedia
American Horror Story hefur slegið í gegn.
American Horror Story hefur slegið í gegn. Af IMDB
Stilla úr Glee. Uppendahl hefur unnið við gerð þeirra þátta.
Stilla úr Glee. Uppendahl hefur unnið við gerð þeirra þátta. Af IMDB
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert