Virtist hóta ofbeldi í Seljaskóla

Úr Seljahverfi.
Úr Seljahverfi. mbl.is/Ómar

Færsla sem birtist á samfélagsmiðlinum Instagram í gær hefur vakið nokkurn óhug. Í færslunni var að finna myndir af hnífum og hótunum, að því er virðist í garð kennara í Seljaskóla. Í bréfi skólastjóra Seljaskóla, Magnúsar Þórs Jónssonar, til foreldra segir að færslan hafi gefið til kynna „að nemandi í Seljaskóla væri í djúpri vanlíðan og hygðist valda sjálfum sér og öðrum skaða.“ Við nánari skoðun hafi hinsvegar komið í ljós að færslan tengdist skólanum ekkert, en engu að síður hafi málið verið tilkynnt til lögreglu.

„Það varð þó allavega strax ljóst að viðkomandi reikningur var ekki í eigu nemanda í Seljaskóla og hvorki myndir eða nöfn sem þar birtust tengdust skólanum á neinn hátt fyrir utan að á einum stað skrifar hann „Seljaskóli“. Þá vildi líka þannig til að það var starfsdagur hér í gær og engir nemendur að hitta kennara nema í viðtölum,“ sagði Magnús í samtali við mbl.is í dag.

Hann segir stjórnendur skólans hafa haft samband við lögreglu um leið og málið kom upp. Ekki hafi verið rætt sérstaklega við nemendur skólans vegna málsins.

Þóra Jónasdóttir, aðstoðaryfirlögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir hótun í færslunni upphaflega hafa virst tengjast einkunnagjöf kennara.

„En þetta tengist þessum skóla ekki neitt og enginn nemandi er þekktur með þessu nafni þar. Við teljum okkur hafa reynt að komast að því hver gæti hafa sett þetta á samfélagsmiðla en okki orðið neinu nær um það.“

Í fyrrnefndu bréfi skólastjórans til foreldra segir að skólastjórnendur liti slíkar hótanir alvarlegum augum en að svo virðist sem nafn skólans hafi verið dregið inn í umræðuna til þess eins að fá athygli.

„Að sjálfsögðu munum við alltaf bregðast við þegar slíkt kemur upp og þá í samræmi við mat okkar vekja viðbragðsferli því tengt. Í þetta skipti töldum við ljóst að ekki væri um raunverulega hættu að ræða og settum því málið í ofangreindan farveg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert