10 milljóna vinningsfé á Stórbokka

Davíð Þór Rúnarsson ásamt Willum Þór Þórssyni á Stórbokka 2015.
Davíð Þór Rúnarsson ásamt Willum Þór Þórssyni á Stórbokka 2015. Mynd/Pókersamband Íslands og Eventa Films

Búist er við að heildarverðmæti vinninga á pókermótinu Stórbokka (e. High Roller) verði allt að 10 milljónir króna. Keppt verður á Grand Hótel í Reykjavík á laugardaginn og er þetta annað árið í röð sem Pókersamband Íslands stendur fyrir mótinu.

Þátttökugjald er 115 þúsund krónur. Innifalið í því er spa-meðferð á Grand Hótel að morgni leikdags. Öllum er frjálst að sækja um þátttöku í mótinu en fyrst þurfa þeir að greiða félagsgjald Pókersambands Íslands.

Í fyrra var mótið haldið fyrir luktum dyrum en í þetta sinn mega allir koma og fylgjast með. „Við ætlum að galopna pókerinn fyrir augum landsmanna,“ segir Davíð Þór Rúnarsson, formaður Pókersambands Íslands.

Formleg dagskrá hefst klukkan 12 þegar Stórbokkar sameinast í fordrykk í Torfastofu. Eftir það verður sameiginlegur málsverður og hefst mótið svo klukkan 14.

Spilað verður á 8 manna borðum og verða þátttakendur 48 talsins. Hver endurkaup kosta 105 þúsund krónur.

Á meðan á mótinu stendur munu Stórbokkar m.a. velja Stórbokkalegasta klæðnaðinn. Á meðal vinninga eru hótelgistingar með morgunmati.

Þingmaðurinn Willum Þór Þórsson setti mótið í fyrra. Hann hefur sett fram lagafrumvarp um að starfsemi spilahalla verði leyfð á Íslandi. Davíð Þór segir að verði frumvarpið samþykkt muni það ekki hafa nein áhrif á Pókersamband Íslands. „Við erum að predika fyrir póker sem keppnisíþrótt en ekki sem peningaspili í spilahöllum,“ segir hann.

Hér má sjá myndband frá Stórbokka í fyrra en þá bar Garðar Geir Hauksson sigur úr býtum: 

Nánari upplýsingar um Stórbokka 2016 má finna á vefsíðu Pókersambands Íslands. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert