Efast um endurreisn innri landamæra

Landamæraeftirlit Evrópulanda hefur verið í deiglunni vegna stríðs straums flóttamanna …
Landamæraeftirlit Evrópulanda hefur verið í deiglunni vegna stríðs straums flóttamanna til álfunnar.

Eftir því sem Evrópuríki leggja meiri áherslu á innri landamæri sín til að bregðast við flóttamannastraumi til álfunnar því minna púður fer í að gæta ytri landamæranna. Aðstoðarforstjóri Frontex, landamærastofnunar Evrópu, segist því efast um gagnsemi þess að endurvekja innra landamæraeftirlit.

Á hádegisfundi Varðbergs í dag sagði Berndt Körner, aðstoðarforstjóri Frontex, að á síðasta ári hafi verið 1,8 milljónir ólöglegra ferða yfir landamæri Evrópu. Sú tala jafngilti þó ekki einstaklingum þar sem mögulegt væri að telja sama einstaklinginn nokkrum sinnum. Stofnunin hafi engin ráð til að fylgjast með einstaklingum eða ferðaáætlunum þeirra. Því sé aðeins hægt að áætla að um milljón manna hafi farið ólöglega yfir landamæri álfunnar í fyrra.

Sú aukning er nær öll tilkominn í austanverðu Miðjarðarhafi. Fjöldi ólöglegra ferða þar jókst um 1.633% í fyrra miðað við árið áður. Kröner sagði að fyrstu tölur fyrir janúar bentu ekki til þess að lát sé á flóttamannastraumnum til Evrópu.

Nokkur ríki hafa brugðið á það ráð að endurvekja landamæraeftirlit sitt til að bregðast við straumi fólks. Kröner sagðist hins vegar spyrja sig hvort að það væri svarið við vandanum. Ef ríkjum berist hælisumsókn þurfi þau eftir sem áður að afgreiða þær. Hann sagðist hins vegar hafa skilning á ríkjum sem hafi gert það vegna þrýstings heima fyrir en benti á að ríkari áhersla á innri landamæri þýddi minni kraft í vörslu ytri landamæranna. Á meðan friður kemst ekki á í löndum eins og Líbíu og Sýrlandi verði ekki hægt að stöðva fólksflutninga yfir landamæri.

Kröner var spurður út í hugmyndir um að veita Frontex ríkari ábyrgð og gera stofnunina að sameiginlegri strandgæslustofnun. Hann sagði það eflaust gott að veita meira fé og mannskap í stofnunina en náist ekki tök á ástandinu í Miðausturlöndum og fólkssmyglarar þar séu ekki stöðvaðir þá stoði það lítið.

mbl.is

Bloggað um fréttina