Kveikjan að slagsmálunum óþekkt

Lögregla er ekki vön hópslagsmálum fullorðinna manna.
Lögregla er ekki vön hópslagsmálum fullorðinna manna. mbl.is/Eggert

Fjórir karlmenn sem voru handteknir vegna hópslagsmála í Skeifunni á laugardag voru allir af erlendum uppruna. Þetta segir Friðrik Smári Björgvinsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is. Mönnunum hefur síðan verið sleppt úr haldi.

„Kveikjan að átökunum er enn óþekkt og ekki er ljóst hversu mikill fjöldinn var sem tók þátt, en flestir voru farnir af vettvangi þegar lögreglan kom,“ segir Friðrik en bætir við að skýrslur hafi verið teknar af vitnum. 

„Rannsóknin miðar meðal annars að því að upplýsa hver hafi verið kveikjan að þessu og hver aðdragandinn var.“

Spurður segir hann lögreglu ekki vana því að eiga við hópslagsmál þar sem fullorðnir menn eiga í hlut. „Það er ekki algengt sem betur fer en þetta hefur gerst,“ segir Friðrik. 

Fjórir voru handteknir og segir Friðrik að þegar lögreglu hafi borið að hafi þeir einir verið eftir á vettvangi. Höfðu þeir ekki alvarlega áverka. Þá lagði lögregla hald á hamar sem notaður var í átökunum en önnur vopn fundust ekki.

Frétt mbl.is: Slógust með kylfum og hamri

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert