Víkingaþema á Heimsdegi barna

„Það var rosalega mikið stuð og fullt í allar smiðjur. Börn í víkingabúningum um allt hús með sverð í bardagasmiðjum, þetta var mjög skemmtilegt,“ segir Hólmfríður Ólafsdóttir, verkefnastjóri í Gerðubergi um Heimsdag barna sem haldinn var í dag.

Á Heimsdegi barna gefst börnum og fylgdarmönnum þeirra tækifæri til að taka þátt í fjölbreyttum smiðjum og að njóta margskonar skemmtunar víða um borgina. Í ár var víkingaþema og svifu Hallgerður langbrók og Gunnar á Hlíðarenda því yfir vötnum. Hægt var að velja á milli ýmissa smiðja eins og að gera sinn eigin víkingabúning og sverð, fara í bardagasmiðju, fá bardagagreiðslur og búa til víkingavinabönd. Þá var einnig hægt að læra rúnaritun og læra skartgripagerð í anda víkinganna.

„Það var mjög góð og ljúf stemning hjá okkur í dag. Hljómsveitin Hrafnagaldur kom og spilaði gamaldags tónlist og það var afar skemmtilegt,“ segir Hólmfríður.

Um 1000 manns lögðu leið sína í Gerðuberg og skemmtu börn á aldrinum þriggja til tíu ára sér í smiðjunum. „Það var þétt setið í öllum smiðjum en húsið er stórt þannig að þetta dreifðist vel.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert