Fyrst og fremst skjólstæðingamiðað kerfi

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir alla hljóta að gleðjast yfir …
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir alla hljóta að gleðjast yfir því að til standi að opna þrjár nýjar heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu enda þótt menn greini ef til vill á um útfærsluna. mbl.is/Styrmir Kári

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra kynnti fyrir helgina endurbætur í heilsugæslunni en höfuðmarkmiðið með þeim er að bæta þjónustu við sjúklinga. Hann segir eðlilegt að skiptar skoðanir séu um málið en er sjálfur ekki í nokkrum vafa um að fyrirhugaðar breytingar séu til mikilla bóta. „Ég geng mjög stoltur fram með þetta verkefni,“ segir ráðherra. 

Kristján Þór Júlíusson kemur eins og stormsveipur inn á skrifstofu sína. „Fyrirgefðu hvað ég er seinn, við skulum vinda okkur í þetta,“ segir hann og lætur sig falla í leðurstólinn fyrir framan mig. Sviptir tappa af sódavatnsflösku. Það er í mörg horn að líta hjá heilbrigðisráðherra þetta fimmtudagssíðdegi enda er hann nýbúinn að kynna endurbætur í heilsugæslunni og umræðan þegar farin á flug í fjölmiðlum. Á leiðinni niður í Hafnarhús er rætt um heilsugæsluna í útvarpinu og á leiðinni aftur upp í Hádegismóa er líka rætt um hana. Ráðherra er að koma af fundi og á leiðinni á annan fund en gefur sér tíma til að fara yfir téðar endurbætur með Sunnudagsblaði Morgunblaðsins í millitíðinni.

„Þetta mál hefur verið lengi í undirbúningi og er hluti af verkefninu sem ég kynnti fyrst opinberlega árið 2014 undir heitinu Betri heilbrigðisþjónusta. Það byggist í grunninn á vinnu sem unnin var á síðustu árum og gekk undir heitinu Fjármögnun eftir forskrift og snýst um að þjónusta heilsugæslunnar sé kostnaðargreind og að það sé greitt fyrir ákveðin verkefni sem ríkið ákveður að kaupa,“ segir Kristján Þór.

Úrbóta var þörf

Hann segir fyrsta verkefnið eftir að hann tók við embætti heilbrigðisráðherra hafa verið að berja í brestina í spítalaþjónustunni en síðan hafi menn einhent sér í að endurskoða heilsugæsluna enda sé hún mikilvæg grunnstoð í kerfinu. Úrbóta hafi verið þörf, um það hljóti allir að vera sammála.

Hann segir eðlilegt að skiptar skoðanir séu um verkefnið, svo sem fram kom strax í kjölfar blaðamannafundarins á fimmtudaginn. „Við vorum alveg undir það búin og þeir sem aðhyllast einkarekstur eða eru andvígir honum munu örugglega finna sitthvað við sitt hæfi eða til að gagnrýna í þessum áformum. Það breytir hins vegar ekki því, sem ég held að allir geti verið sammála um, sama hvar í flokki þeir standa eða hvaða lífsskoðanir þeir hafa, að það hlýtur að vera fagnaðarefni ef áform ganga eftir um þrjár nýjar heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu, þar sem við höfum ekki séð nýja heilsugæslustöð í áratug, þrátt fyrir um tuttugu þúsund íbúa fjölgun. Sama hvað okkur finnst um útfærsluna þá hljótum við að geta glaðst saman yfir þessu og litið upp úr skammdegisdrunganum.“

Kristján Þór er bjartsýnn á að þessum langþráða áfanga verði náð strax á þessu ári en áætlanir ráðuneytisins ganga út á það að þrjár nýjar heilsugæslustöðvar taki til starfa á hausti komanda.

Þokkalega bjartsýnn

Í kröfulýsingu vegna þessara áforma er meðal annars tekið á þáttum sem snúa að hámarksbið eftir þjónustu, kröfum um húsnæði, lækningatæki og annan búnað, skipulagi lyfjamála, kröfum til skráningar heilbrigðisupplýsinga og samtengingum sjúkraskráa.

Kristján Þór er bjartsýnn á að aðilar finnist til að reka þessar nýju stöðvar, hratt og örugglega. „Ég hef mínar upplýsingar um mat á þörfinni frá heilbrigðisstarfsmönnum, bæði innan heilsugæslunnar og utan, og miðað við þær er fyllsta ástæða til að vera þokkalega bjartsýnn á að það verði áhugi á þessu. Svo kemur það bara í ljós í kjölfar þeirra auglýsinga og kynninga sem fram munu fara. Það verður spennandi að sjá hver áhuginn verður og hvernig hann verður fullnustaður.“

mbl.is/Styrmir Kári

Í kynningu sinni vegna endurbótanna sagði ráðherra markmiðið með breytingunum fyrst og fremst vera að jafna samkeppnisstöðu Íslands gagnvart nágrannalöndunum varðandi þjónustu við sjúklinga og starfsaðstæður starfsmanna. Félag íslenskra heimilislækna hefur sagt að ef við ætlum að ná yngra fólki frá útlöndum til heilsugæslunnar þá verðum við að bjóða upp á fjölbreyttari rekstrarform líkt og eru við lýði í nágrannalöndum okkar. „Þetta er mjög mikilvægt,“ segir Kristján Þór, „enda viljum við að fólk geti haft meira um sinn vinnustað, sinn vinnutíma og sinn frítíma að segja. Verið sjálfs sín herrar í þeim efnum. Sömuleiðis eru þetta líka kröfur á hendur ríkinu sem kaupanda þjónustunnar, það er varðandi gæði hennar, eftirlit og svo framvegis. Eins skyldur ríkisins til að veita borgurunum þessa grundvallarþjónustu sem heilsugæslunni er ætlað að veita og bundin er í lög. Í lögum um heilbrigðisþjónsutu frá árinu 2007 er mjög skýrt ákvæði um það markmið að heilsugæslan sé fyrsti viðkomustaður skjólstæðinga heilbrigðiskerfisins. Álag á spítalana hefur verið of mikið vegna þess að heilsugæslan hefur ekki náð að uppfylla þessi skilyrði. Fyrir vikið hefur orðið til kostnaður og biðlistar annars staðar í kerfinu, bæði hjá sérgreinalæknum og spítölum.“

Ráðherra gerir sér ekki vonir um að þessar endurbætur muni leysa þennan vanda í eitt skipti fyrir öll en þær komi örugglega til að létta verulega á honum. „Markmiðin eru alveg skýr, það er að allir hafi aðgang að sínum heimilislæknum og að sjúklingar verði skráðir á stöðvar en það mun hins vegar taka okkur einhvern tíma að uppfylla þetta. Eftir svona langt hlé, tíu ár, verður ekki fyllt upp í þörfina á einu eða tveimur árum. Það segir sig alveg sjálft.“

Höfum skorið okkur úr

Hann kveðst líka vera að horfa til þess að bjóða fólki með þekkingu og áhuga á heilsugæslustörfum upp á umhverfi sem stenst samanburð við nágrannaþjóðirnar. „Í Noregi og Danmörku er heilsugæslan að mestu leyti einkarekin, blönduð í Svíþjóð og Finnar eru að umturna öllu sínu kerfi. Þessi áform eru áfangi í þá veru að nálgast þetta félagslega norræna líkan sem flestir eru sammála um að standa eigi vörð um. Til þessa höfum við skorið okkur úr í þessum efnum, þó svo við eigum ágætis dæmi um einkarekstur í heilsugæslunni, eins og Salastöðina.“

Eins og fram hefur komið er ekki gert ráð fyrir arðgreiðslum í hinu nýja rekstrarformi. „Meðan við erum ekki með fullfjármagnað kerfi er eðlilegt að hafa þá skilmála inni. Þeir munu gilda um rekstur allra heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu og ég sé ekki að útlit sé fyrir að það breytist í náinni framtíð.“

Valið ekki vandamál

Kristján Þór er ekki í vafa um að endurbæturnar muni leiða til aukins jafnræðis innan kerfisins. „Það hefur ákveðið ójafnræði verið innbyggt í kerfið vegna þess að við höfum verið með þrennskonar greiðslufyrirkomulag. Við erum með opinberu stöðvarnar fimmtán, samninga við einkastöðvarnar, Salastöðina og Lágmúla, og heimilislækna utan heilsugæslu, sem eru með samning við Sjúkratryggingar Íslands. Mér finnst eðlilegt og skynsamlegt að greiðslufyrirkomulagið og fjármögnunin á þessari grunnstoð sé öll með sama hætti; að allir sitji við sama borð. Það er í þágu sjúklinganna enda eiga þeir að hafa val og eiga að geta ráðið því mestan part hvernig fjárstreymið verður innan kerfisins. Þetta er fyrst og fremst skjólstæðingamiðað kerfi.“

Kristján Þór sér ekki að vandamál geti hlotist af því að sjúklingar hafi val um það til hvaða heilsugæslustöðvar þeir leita og óttast ekki að sumar stöðvar fyllist en aðrar tæmist. „Af hverju skyldu allir streyma á sömu stöðina? Er það ekki vegna þess að hún er að veita betri þjónustu en aðrar stöðvar? Það hlýtur þá að verða öðrum stöðvum hvatning til að standa sig betur. Ég er sannfærður um að valfrelsi sjúklinga komi til með að bæta þjónustuna á heildina litið. Mér er kunnugt um að stöðvarnar sem við erum að reka á höfuðborgarsvæðinu í dag eru þegar byrjaðar að búa sig undir þetta nýja umhverfi og mér skilst að það sé strax farið að skila árangri. Áhrifin eru með öðrum orðum farin að koma fram. Sem er gott.“

Fagnar áhuga þjóðarinnar

Úr því maður er kominn inn á gafl hjá heilbrigðisráðherra er ekki hægt annað en spyrja hann út í undirskriftasöfnun Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, en samkvæmt nýjustu fréttum hafa áttatíu þúsund manns ritað nafn sitt á Endurreisn.is og þar með krafist þess að ellefu prósentum af vergri landsframleiðslu verði varið í íslenska heilbrigðiskerfið.

Kristján Þór segir málið ekki komið með formlegum hætti inn á borð ríkisstjórnarinnar enda hafi enginn ráðherra ennþá séð téðan lista, aðeins heyrt af honum í fjölmiðlum. „Ég skil það þannig að áskoruninni sé beint til Alþingis og þá hljóta aðstandendur söfnunarinnar á einhverjum tímapunkti að koma undirskriftalistanum þangað.“

Hafandi sagt það fagnar heilbrigðisráðherra áhuga þjóðarinnar á því að standa vörð um íslenska heilbrigðiskerfið. „Það er gríðarlegur fjöldi að leggja þessari baráttu lið og í henni er fólgin mjög skýr áskorun um það að forgangsraða í þágu heilbrigðismála þjóðarinnar. Það er ánægjulegt en á sama tíma verða menn að skilja að til þess að af því megi verða þarf að sætta sig við að eitthvað annað verði sett til hliðar. Eigi að setja aukið fjármagn í heilbrigðiskerfið, umfram aðra málaflokka, hlýtur það að bitna á einhverjum öðrum verkefnum.“

Biðlistar farnir að styttast

Kristján Þór hefur ekki farið varhluta af umræðu um langa biðlista í heilbrigðiskerfinu í sinni tíð sem ráðherra. Nú síðast var Ríkisendurskoðun að komast að þeirri niðurstöðu að bið barna og unglinga eftir geðheilbrigðisþjónustu sé óviðunandi en hún getur tekið allt að eitt og hálft ár.

Ráðherra segir langa biðlista alltaf áhyggjuefni en sem betur fer megi horfa með nokkurri bjartsýni fram á veginn í þeim efnum. „Við erum þegar farin að sjá árangur af þeim fjármunum sem veitt var sérstaklega til að vinna á biðlistum. Við sjáum það til dæmis varðandi hjarta- og kransæðaaðgerðir, sem var einn af fjórum flokkum sem við lögðum mesta áherslu á og ég veit að við erum að ná árangri á fleiri sviðum, svo sem varðandi mjaðma- og hnéskipti og augnaðgerðir. Þessir löngu biðlistar í kerfinu eiga sér auðvitað langa sögu og eru í sjálfu sér ekkert nýtt fyrirbæri. Hins vegar lengdust þessir listar því miður á síðasta ári í tengslum við vinnudeilur starfsfólks í heilbrigðiskerfinu. Það er líka óhjákvæmilegt eftir niðursveiflu eins og varð í efnahagshruninu, þegar hola kom í fjárveitingar til heilbrigðiskerfisins, að það taki tíma að fylla í skörðin. Við erum hins vegar byrjuð að vinna okkur niður og það hraðar en marga grunar.“

Varðandi geðheilbrigðismálin viðurkennir Kristján Þór að hægt sé að gera betur. „Það er nokkuð sérstakt að þegar ég kom inn í þetta ráðuneyti lá engin almenn stefnumörkun fyrir í þessum málaflokki. Ég lagði fram tillögu í þinginu eftir mjög mikla þverfaglega og þverpólitíska vinnu á síðasta ári um geðheilbrigðisstefnu til næstu ára. Það var mikill samhljómur um þetta verkefni og í mínum huga er afar brýnt að þingið samþykki tillöguna sem fyrst enda þarf að berja í þessa bresti. Ég er raunar þegar byrjaður að vinna eftir tillögunni enda þótt ekki liggi fyrir samþykki Alþingis. Að auki má rifja það upp að ég setti fyrir áramótin inn aukafjárveitingar bæði á Þroska- og Hegðunarmiðstöðina til að freista þess að vinna niður biðlista þar. Í byrjun þessa árs veitti ég svo Barna- og unglingageðdeild Landspítalans 45 milljóna króna aukafjárveitingu til að vinna sömuleiðis niður biðlista sem þar eru eftir þjónustu. Ég viðurkenni þennan vanda fúslega en við erum að vinna í því að leysa hann. Það mun þó taka einhvern tíma.“

mbl.is/Styrmir Kári

Miklar tilfinningar

Heilbrigði er mörgum hjartans mál og flestir geta verið sammála um að embætti heilbrigðisráðherra sé ekki það þakklátasta í íslenska stjórnarráðinu. Sumir segja það óðs manns æði að taka embættið að sér og það jaðri jafnvel við pólitískt sjálfsvíg. Kristján Þór hefur nú ráðið húsum í heilbrigðisráðuneytinu í tæp þrjú ár og kvartar ekki.

„Það er mikil áskorun að gegna embætti heilbrigðisráðherra og miklar tilfinningar því tengdar. Það verkefni þarf ég að umgangast af virðingu og auðmýkt fyrir viðfangsefninu. Mitt hlutverk er að sjá til þess að þetta þjónustukerfi geti læknað og líknað fólki og því reyni ég að sinna eftir bestu getu.“

Hann segir umræðuna ekki trufla sig en hún getur á köflum verið óvægin. „Ég hugsa það ekki þannig. Þegar miklir hagsmunir eru í húfi, eins og varðandi heilsu fólks, er eðlilegt að skoðanir séu skiptar og menn takist á. Þetta starf hefur á margan hátt fært mér nýja sýn á stjórnmálin og fyrir það er ég þakklátur. Ég hef þroskast í þessu embætti.“

Spurður hvort hann gæti hugsað sér að gegna embættinu áfram komi Sjálfstæðisflokkurinn til með að eiga áfram aðild að ríkisstjórn eftir næstu kosningar brosir Kristján Þór. „Það er langt til næstu kosninga og ótímabært að velta því fyrir sér. Ég hef hins vegar aldrei skorast undan erfiðum og krefjandi verkefnum á mínum pólitíska ferli, allt frá því ég byrjaði í bæjarmálunum heima á Dalvík. Mér finnst gaman að setja mig inn í ný mál og vinna með fólki að því að bæta líf okkar og umhverfi.“

Ánægjustundirnar fleiri

Spurður hvort hann hugsi aldrei: „Æi, hvers vegna er ég að þessu?“ viðurkennir Kristján Þór að það komi fyrir. „Hendir það ekki einhvern tíma alla sem eru í stjórnmálum? Það gerist hins vegar mjög sjaldan hjá mér. Ánægjustundirnar eru mun fleiri. Ein af þeim hefur verið að kynna þessar endurbætur í heilsugæslunni og ég geng mjög stoltur fram með þetta verkefni. Það hlýtur að vera draumur hvers og eins sem tekur þátt í stjórnmálum og fá tækifæri til að breyta og bæta og þetta er tvímælalaust liður í slíkri vegferð.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert