Íslendingar jákvæðir fyrir erlendu vinnuafli

Íslendingar eru jákvæðir fyrir að erlent vinnuafl komi til landsins.
Íslendingar eru jákvæðir fyrir að erlent vinnuafl komi til landsins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Íslendingar eru almennt jákvæðari gagnvart því að fá erlent vinnuafl til landsins en íbúar annarra ríkja heimsins. Sex af hverjum tíu hér á landi telja jákvætt að fá erlent vinnuafl til landsins á meðan 21% telja það neikvætt og 19% taka ekki afstöðu. Þetta kemur fram í könnun sem Alþjóðlegu Gallupsamtökin gerðu í árlegri könnun á viðhorfi og væntingum fólks um allan heim.

Könnunin var gerð í 69 löndum og í 42 þeirra voru fleiri sem töldu neikvætt að fá erlent vinnuafl til landsins en jákvætt.Með því að reikna vægi þjóða út frá því hversu fjölmennar þær eru fæst þó út að fleiri eru jákvæðir fyrir erlendu vinnuafli, en íbúar stórra landa eins og Kína og Indlands eru almennt nokkuð jákvæðir fyrir slíku.

Í könnuninni eru löndum skipt upp í þrjá flokka; fátækar þjóðir, milliríkar þjóðir og ríkar þjóðir. Ísland situr í efsta sæti jákvæðnistuðulsins (með kvarðann -100 upp í 100)  í flokki ríkra þjóða ásamt Sádí-Arabíu með 39 stig. Neðst í þessum flokki eru Belgía með -49 stig og Frakkland með -37 stig.

Meðal milliríkra þjóða er Kína lang efst með 74 stig en á botnunum eru Taíland með -65 stig og Írak með -62 stig. Í flokki fátækra þjóða eru Pakistan efst með 65 stig og Kósóvó neðst með -42 stig.

Mynd/Gallup

Í tilkynningu frá Gallup kemur fram að niðurstöðurnar bendi til þess að hjá fátækum þjóðum telji meirihluti landsmanna jákvætt að fá erlent vinnuafl til landsins. Milliríkar þjóðir telji það aftur á móti almennt neikvætt og ríkar þjóðir skiptist í tvennt þar sem sumar telji það jákvætt meðan aðrar telji það neikvætt.

Meðal 18 fátækustu þjóða könnunarinnar eru aðeins þrjár þar sem fleiri telja neikvætt en jákvætt að fá erlent vinnuafl til landsins. Meðal milliríkra þjóða eru aftur á móti aðeins þrjár þar sem fleiri telja jákvætt en neikvætt að fá erlent vinnuafl til landsins, en fleiri telja það neikvætt en jákvætt hjá 31 þeirra. Meðal 17 ríkustu þjóða heims eru skoðanir skiptari, en hjá níu þeirra telja fleiri jákvætt en neikvætt að fá erlent vinnuafl til landsins en hjá átta þeirra fleiri neikvætt en jákvætt.

Jákvæðnistuðullinn yfir allan heiminn 25 stig, en  ungt fólk er mun líklegra til að vera jákvætt gegn innflutningi erlends vinnuafls og er jákvæðnistuðull fólks yngra en 35 ára 30 stig. Hjá fólki eldra en 55 ára er stuðullinn aftur á móti 15 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert