Tvær auglýsingar fyrir 2,5 milljónir

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra. Árni Sæberg

Frá því í júní 2013 hefur ríkisstjórn Íslands birt tvær auglýsingar og kostuðu þær samanlagt rúmar 2,5 milljónir króna.

Þetta kemur fram í svari Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra, við fyrirspurn Katrínar Júlíusdóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, um kostnað við auglýsingar ríkisstjórnarinnar.

Heildarkostnaður án virðisaukaskatts nam 2.537.918 krónum. Þar af nam birtingarkostnaður 2.290.909 krónum. Hann skiptist þannig niður á fréttamiðla:  RÚV 197.700 kr., Fréttablaðið 800.000 kr., Morgunblaðið 458.835 kr., Fréttatíminn 193.800 kr., DV 135.000 kr., Viðskiptablaðið 139.994 kr., visir.is 168.000 kr, mbl.is 70.590 kr., dv.is 94.290 kr. og pressan.is 32.700 kr.

Hvattir til að fylgjast með verðlagi

„Efni fyrri auglýsingarinnar var að hvetja neytendur til að fylgjast með verðlagi og beina viðskiptum sínum til þeirra sem skiluðu lækkunum eða niðurfellingu opinberra gjalda til almennings í lægra vöruverði og var sú hvatning sett fram í tengslum við lagabreytingar sem fólu í sér lækkanir á tollum af fötum, skóm og öðrum nauðsynjavörum, sem tóku gildi um síðustu áramót,“ segir í svarinu.

Niðurgreiðsla skulda vegna stöðugleikaframlags

„Efni síðari auglýsingarinnar var að vekja athygli almennings á þeirri þverpólitísku samstöðu sem náðist á Alþingi við samþykkt fjárlaga um að verja bæri tekjum sem rynnu í ríkissjóð vegna stöðugleikaframlaga föllnu bankanna, á grundvelli nauðasamninga þeirra, til niðurgreiðslu skulda ríkissjóðs og ná þannig fram lækkun á vaxtabyrði ríkissjóðs.“

Katrín Júlíusdóttir.
Katrín Júlíusdóttir. mbl.is/Styrmir Kári

Vörðuðu almannahagsmuni

Þar kemur einnig fram að ákvörðunin um að birta auglýsingarnar hafi verið  tekin í forsætisráðuneytinu, að höfðu samráði við fjármála- og efnahagsráðuneytið, að lokinni kynningu í ríkisstjórn. Kostnaður var greiddur af ráðstöfunarfé ríkisstjórnar samkvæmt ákvörðun hennar.

 „Framangreind málefni varða mikilsverða almannahagsmuni og var það mat ríkisstjórnarinnar að réttlætanlegt væri að nýta ráðstöfunarfé hennar til að kosta birtingu umræddra tveggja auglýsinga enda þótt upplýsingarnar hefðu þegar verið aðgengilegar almenningi í öðru formi,“ segir í svarinu.

Fram kemur að ríkisstjórnin hafi ekki mótað sér stefnu um notkun auglýsinga við upplýsingamiðlun til almennings. Ekki séu uppi áform um frekari birtingar auglýsinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert