Kaldir en átakalitlir páskar

Það er víst ekki hægt að pakka hlýju fötunum alveg …
Það er víst ekki hægt að pakka hlýju fötunum alveg strax. mbl.is/Ómar Óskarsson

Á morgun, fimmtudag, snýst hægt og rólega í norðanátt og með henni kemur kaldara loft en hefur verið á landinu síðustu daga. Um páskana verða ríkjandi norðanáttir og snjóar nokkuð um norðan- og austanvert landið. Veðrið verður nokkuð átakalítið. 

„Það verður væta um allt land á morgun. Það er alveg á mörkunum hvort það verða skúrir eða él. Lengst af verður þurrt norðanlands á morgun en strax í fyrramálið er rigning sunnan- og vestanlands.

Það fer kólnandi og breytist í slyddu eða él sunnan- og vestanlands. Seinnipartinn má búast við að væta fari að falla á Norður- og Austurlandi,“ segir Birta Líf Kristinsdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Á föstudaginn snýst í norðanátt og verður rigning eða slydda með suðurströndinni um kvöldið þegar úrkomubelti fer yfir landið. Hvassast verður á Vestfjörðum.

„Eftir það léttir að mestu til sunnan- og vestanlands, sérstaklega suðvestanlands,“ segir Birta Líf. Nokkur úrkoma fellur á Norður- og Austurlandi næstu daga, þá aðallega él og snjór.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert