Vilja fá allt upp á borðið

Svandís Svavarsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Árni Páll Árnason, Óttarr Proppé og …
Svandís Svavarsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Árni Páll Árnason, Óttarr Proppé og Birgitta Jónsdóttir á fundi í dag. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Við teljum mjög mikilvægt að ríkisstjórnin mæti kjósendum með allt uppi á borðum. Þetta eru upplýsingar sem var haldið frá kjósendum í aðdraganda síðustu kosninga og skiptir máli að fólk hafi fyrir framan sig,“ segir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, í samtali við mbl.is.

Samþykkt var á fundum þingflokka stjórnarandstöðuflokkanna síðdegis að leggja fram tillögu í næstu viku um að þing verði rofið og boðað til nýrra kosninga. Hvort vantrautstillaga á ríkisstjórnina verður hluti þeirrar tillögu eða kemur í kjölfarið verður ákveðið síðar.

„Við eigum síðan eftir að útfæra að í okkar hópi nákvæmlega hvaða form þessi tillaga tekur. Hvort þetta verður vantrauststillaga að hefðbundinni gerð eða einungis tillaga um þingrof og kosningar. Við höfum líka auðvitað hugsað það með hvaða hætti við undirbyggjum vantrauststillögu ef til hennar kemur. Hluti af því er auðvitað að hefja nú þegar vinnu í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og óska eftir því að umboðsmaður Alþingis komi þangað og fá upplýsingar frá honum um það hvað hann telji sig geta gert eða telur ástæðu til að gera.“

Þá telji stjórnarandstöðuflokkarnir að Alþingi fái skýrslu frá þeim ráðherrum sem tengdir hafa verið í umræðunni að undanförnu við aflandsfélög í næstu viku. Hann segir sjálfur margt mæla með því að frekar verði lögð fram einföld tillaga um þingrof og kosningar en eftir sé að ræða það til fulls.

mbl.is

Bloggað um fréttina