70 milljónir fyrir frímerki Indriða

Útlendur frímerkjasafnari greiddi 18 milljónir króna fyrir þetta 16 skildinga …
Útlendur frímerkjasafnari greiddi 18 milljónir króna fyrir þetta 16 skildinga bréf sem sent var frá Djúpavogi til Kaupmannahafnar árið 1874.

Jafnvirði um 70 milljóna íslenskra króna fékkst fyrir safn íslenskra frímerkja sem erfingjar Indriða heitins Pálssonar forstjóra létu bjóða upp í Malmö í Svíþjóð. Upphæðin er mun hærri en búist hafði verið við þegar haft er í huga að um 40% safnsins eru enn óseld og verða boðin upp í haust.

Steinar Friðþórsson hjá uppboðshúsinu Postiljonen í Malmö, sem seldi frímerkin, segir að ánægjulegt hafi verið að fylgjast með því hve mikill áhugi var á frímerkjasafni Indriða. Dróst uppboðið talsvert á langinn vegna þess hve margir buðu í safnið á staðnum og í síma.

Útlendur kaupandi

Einn aðili mun hafa eignast allt safn Indriða, en ekki fæst upplýst hver hann er nema að hann er útlendur. Þetta einstaka frímerkjasafn verður því varðveitt utan Íslands.

Frímerkjasafnið var boðið upp í um 200 einingum og var hæsta verðið sem fékkst fyrir einstakan hluta þess 130 þúsund evrur eða 18 milljónir íslenskra króna. Um var að ræða frímerkt bréf sent frá Djúpavogi til Kaupmannahafnar 11. júní 1874. Á því var 16 skildinga frímerki og var póstburðargjaldið hærra en ella vegna þess að annað bréf var inni í umslaginu. Samkvæmt stimpli á bakhlið er bréfið móttekið í Kaupmannahöfn 26. júní.

Þess má geta að sænski greifinn Douglas Storckenfeldt á mjög verðmætt safn íslenskra frímerkja. Meðal dýrgripa í safni hans er svonefnt Biblíubréf, frímerkt umslag frá 1876, sem fannst inni í gamalli biblíu á Íslandi árið 1972. Það er verðmætasta frímerkjabréf sem til er frá Íslandi. Storckenfeldt, sem er sterkefnaður, mun hafa sýnt safni Indriða áhuga.

Eins og fram kom í Morgunblaðinu í nóvember í fyrra hafði ekki verið leitað eftir leyfi Minjastofnunar Íslands fyrir útflutningi frímerkjasafnsins. Vöknuðu spurningar um það hvort þar með væri brotið gegn lögum um útflutning menningarverðmæta. Eftir samráð Minjastofnunar og Þjóðskjalasafns var óskað eftir því að fá rafrænt afrit af safninu til varðveislu hér heima, en að öðru leyti verður ekki frekar aðhafst í málinu.

Í samtali við Morgunblaðið í febrúar sögðu tveir af forystumönnum íslenskra frímerkjasafnara, Sigurður Thoroddsen og Hrafn Hallgrímsson, að safn Indriða ætti heima á Íslandi og létu í ljósi von um að það yrði keypt af íslenskum stjórnvöldum og varðveitt í frímerkjasafni hér. Ekki er kunnugt að opinberir aðilar hér hafi boðið í safnið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert