Er pláss fyrir alla undir regnhlífinni?

BDSM Ísland hefur verið tekið undir regnbogaregnhlíf Samtakanna '78 en …
BDSM Ísland hefur verið tekið undir regnbogaregnhlíf Samtakanna '78 en ekki eru allir á eitt sáttir um hvort félagið eigi heima þar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Samtökin ’78 glíma nú við eina stærstu kreppu sem komið hefur upp innan félagsins í áraraðir. Skiptar skoðanir eru um nýtilkomna hagsmunaaðild félagsins BDSM á Íslandi að samtökunum og raunar svo mjög að lögmæti aðalfundar var vefengt auk þess sem komið hafa fram vantraustsyfirlýsingar í garð stjórnarinnar.

Þá hafa einhverjir gripið til þess ráðs að segja sig úr samtökunum, þar á meðal er Margrét Pála Ólafsdóttir, stofnandi Hjallastefnunnar, sem  hefur verið meðlimur samtakanna í á fjórða áratug.

Í færslu á Facebook segist Margrét Pála vera „algjörlega mótfallin stefnubreytingum Samtakanna 78“ sem inntaka BDSM Íslands feli í sér að hennar mati. Segir hún þurfa að ríkja almenn sátt allra félaga um efnið og að aðferðir téðra stefnubreytinga þurfi að vera hafnar yfir allan vafa samkvæmt félagslögum.

„Um hvorugt hefur verið hirt og því yfirgef ég fyrrum mannréttindasamtökin mín með meiri sorg í hjarta en orð fá lýst.“

Fjölmargir innan samtakanna hafa hinsvegar tekið félaginu fagnandi. Þeirra á meðal er Auður Magndís Auðardóttir, framkvæmdastýra Samtakanna  ‘78, sem reit pistil um málið fyrir Kvennablaðið.

 „Ef við gefum BDSM-hneigðum sjálfsskilgreiningarvald til að skilgreina sínar upplifanir og setja á þær orð, rétt eins og við höfum krafist þess að fá að gera varðandi okkar eigið líf, þá liggur ljóst fyrir að þau eru hinsegin,“ skrifar Auður. Segir hún samtökin, sem félag hinsegin fólks á Íslandi, ekki geta hafnað hluta hinsegin fólks vegna ótta við að það skaði orðspor þeirra sem fyrir eru í félaginu. Það sé óréttlátt og andstætt grunngildum mannréttindabaráttu.

Leður og BDSM eru nátengd fyrirbæri í hugum margra.
Leður og BDSM eru nátengd fyrirbæri í hugum margra. mbl.is/AFP

Sex atkvæði skildu að

Einkunnarorð BDSM á Íslandi eru „Öruggt – Meðvitað – Samþykkt“ og skilgreinir félagið sig sem „stuðnings-­ og fræðslufélag fólks með BDSM­-hneigðir“. Félagið fékk upprunalega aðild að Samtökunum ’78 á aðalfundi þeirra þann 5. mars en vefengt var að stjórninni hefði verið skylt að leggja umsóknina fyrir aðalfundinn. Á heimasíðu Samtakanna segir að lögmaður samtakanna hafi komist að þeirri niðurstöðu að stjórn hafi sannarlega borið skylda til að leggja umsóknina fyrir en að hinsvegar hafi orðið ljóst við skoðun að aðrar ástæður gætu mælt gegn lögmæti fundarins. Það var nefnilega ekki boðað til hans „bréfleiðis“ líkt og segir í lögum samtakanna og var því ákveðið að boða til félagsfundar.

Kosið var um allt það sem fram fór á aðalfundinum að nýju, með leynilegri kosningu, þ. á m. um aðild BDSM-félagsins og um nýja stjórn. Stjórnin hélt velli þar sem kjör hennar var staðfest með 105 atkvæðum gegn 24. Mun minni munur var í kosningu um staðfestingu eða synjun á aðild BDSM-félagsins að samtökunum. Alls greiddu 129 atkvæði, þar af 72 með staðfestingu, 56 með synjun og einn skilaði auðu.

Ásthildur Gunnarsdóttir, varaformaður Samtakanna ’78, segir í samtali við mbl.is að lög félagsins krefjist ekki aukins meirihluta í kosningum sem þessum. Hvað þetta tiltekna mál varðar hafi við yfirferð laganna hinsvegar komið í ljós að þau eru meingölluð. Því standi til að taka þau rækilega í gegn. Lögin séu þó þær leikreglur sem þurfi að spila eftir sem stendur. Í þessu tilviki hafi verið kosið eftir þeim í tvígang og sú kosning standi.

Kynhegðun skiptir sköpum

Nokkuð hefur verið rætt um muninn á kynhegðun og kynhneigð í tengslum við aðild BDSM Íslands að Samtökunum og um að margir meðlimir BDSM Íslands séu gagnkynhneigðir. Ásthildur bendir í því samhengi á að aðildarfélög á borð við Trans Ísland og Intersex Ísland byggi ekki á grunni kynhneigðar og því sé ástæðulaust að krefja önnur félög um slíkt, þó raunar skilgreini umrætt félag félagsmenn sína sem BDSM-hneigt. Áhersla gagnrýnenda beinist þó ekki aðeins að því hverjir félagsmenn eru heldur hvað þeir gera.

 „Fyrir mörgum árum var kynlífsvinkillinn aftengdur umræðunni og baráttunni af því að umræðan var svo neikvæð. Fólk sagði: „Ég vil ekkert vita hvað hommar eru að gera í sínu svefnherbergi,“ og þá held ég að umræðan hafi viljandi verið tekin út fyrir þetta box,“ segir Ásthildur.

Hún segir kynhegðun þó augljóslega skipta sköpum sem hluti af kynhneigð og að þó svo að vissulega hafi margir flíkað viðlíka viðhorfum í garð BDSM-fólks á síðustu vikum og uppi voru gagnvart samkynhneigðum fyrir einhverjum árum virðist sem svo að aukinn fjöldi fólks vilji ekki fela umræðuna um hinsegin kynlíf lengur.

Hún segir að sá málflutningur sem hafi komið sér og nýrri stjórn hvað mest á óvart sé hinsvegar gagnrýni á að fyrri stjórn hafi lagt umsókn BDSM Íslands fyrir aðalfund enda hafi lögmaður samtakanna tekið af allan vafa um að henni hafi borið skylda til þess.

Ásthildur segir kynlífsvinkilinn viljandi hafa verið aftengdur umræðunni á árum …
Ásthildur segir kynlífsvinkilinn viljandi hafa verið aftengdur umræðunni á árum áður.

„Þurfum að stoppa og skoða málin“

Í samtali við mbl.is segir Margrét Pála segir að það sem standi í sér sé fyrst og fremst að ákvörðunin sé mjög umdeild og að vafi leiki á hvort nægilega sterkur meirihluti sé innan samtakana fyrir þessari ákvörðun.

„Samtökin ’78 hafa lengst af verið mannréttindasamtök sem setja réttindabaráttu og baráttu fyrir viðurkenningu í fremsta sæti. Nú eru þau að stefna í að vera regnhlífarsamtök fyrir allskyns fjölbreytileika sem getur verið frábært en ég segi fyrir mig að ef það er ekki sterkur meirihluti fyrir því að við séum að fara endanlega inn á þá braut þurfum við að stoppa við og skoða málin betur.“

Hún segir tvíþætta stefnubreytingu felast í aðild BDSM Íslands að Samtökunum. Annars vegar hafi verið þvinguð fram ákvörðun með naumum meirihluta og hinsvegar ríki ekki einhugur um að BDSM-fólk verði fyrir beinni mismunun á grundvelli kynhneigðar. Í félaginu sé margt gagnkynhneigt fólk sem vissulega þurfi að sameinast um sína stöðu, sýnileika og virðingu en að margir félagsmenn Samtakanna nái ekki að tengja það við mannréttindabaráttu samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og trans-fólks.

Margrét segir þá sundrungu sem upp er komin til þess fallna að draga úr afli og áhrifum Samtakanna. Hún segir marga óttast hvað verði um sérmálefni lesbía og homma innan Samtakanna ’78 ef hópar þar innan verði svo margir og ólíkir að upprunalegar áherslur samkynhneigðra glatist vegna regnhlífarhlutverksins gagnvart öðrum hópum.

„Ef regnhlífin verður of stór er hætta á að það fari eitthvað að gefa sig í henni. Það er ástæðan fyrir því að regnhlífar eru yfirleitt í ákveðinni stærð, svo þær geti haldið sínu þjála hlutverki, að það megi leggja þær saman og síðan spenna aftur út með nægilegum styrk.“

Margrét Pála hefur yfirgefið Samtökin '78 með sorg í hjarta.
Margrét Pála hefur yfirgefið Samtökin '78 með sorg í hjarta. Ljósmynd/Steinar H

„Engin raunveruleg stefnubreyting“

Fyrrnefnda stefnubreytingu vill Ásthildur ekki kannast við.

„Staðreynd málsins er bara sú að það er engin raunveruleg stefnubreyting,“ segir Ásthildur. „Ef það varð stefnubreyting þá átti hún sér stað fyrir miklu lengri tíma þegar félagið hætti að vera bara félag fyrir samkynhneigða. Félagið er hinsegin félag í dag. Við erum t.d. með intersex fólk og transfólk og hvorugt snýst um kynhneigð.“

Hvað daglega starfsemi samtakanna varðar segir Ásthildur að engar breytingar verði þar á þrátt fyrir að nýtt félag hafi fengið aðild. Fræðsla á vegum þeirra hafi blómstrað, enn sé boðið upp á faglega ráðgjöf auk þess sem opin hús og ungliðastarfsemi heyri enn undir þennan sama hátt.

Hún segir að þó svo að það hafi frést af stofnun félaga homma eða lesbía sé það í eðli sínu ekki beinn ósigur fyrir Samtökin enda hafi þau þegar áþekk félög innan sinna raða.

„Ef fólk telur þörf á því að vera með sér félag er það alveg gott og blessað. En við erum allt í einu að heyra raddir um það núna að fólk sé ósátt við að þetta sé ekki lengur félag þess. Fólk er að segja að samtökin eigi ekki að berjast fyrir réttindum gagnkynhneigðra heldur samkynhneigðra en þá er búið að loka á stóran hóp félagsmanna. Það þýðir hinsvegar að fólk rís öflugt upp á móti.“

Grandskoðaði hjarta sitt

Margrét segist virða skoðanir þeirra sem telja gagnrýni þeirra sem mótmælt hafa aðild BDSM Íslands að Samtökunum litast af einmitt þeim fordómum sem félagið telur félagsmenn sína verða fyrir. Hún hafi hinsvegar grandskoðað hjarta sitt.

„Efnisleg umræða um hverjir eiga saman og hverjir ekki er flókin og tilfinningatengd og ég veit að margar lesbíur og hommar líta til þessa þáttar að það skipti ekki lengur máli gagnvart aðild að Samtökunum hvort fólk sé samkynhneigt eða gagnkynhneigt.“

Margrét segir einnig að mögulega skipti það ekki máli lengur og að hinni löngu vegferð samkynhneigðra sem leiðandi afls í Samtökunum '78 sé lokið en að þá sé best að ræða heiðarlega um þá breytingu.

Hún segir að þó svo að margt trans- og intersex fólk sé gagnkynhneigt hafi það samt passað undir samtakahattinn þar sem þeir hópar eigi í beinni lagalegri baráttu gegn „sömu mismununarákvæðum“.

„En ef það væri sterkur meirihluti fyrir inngöngu BDSM-félagsins á löglega boðuðum aðalfundi væri afstaða mín vitaskuld önnur en hún er í dag. Mér finnst skipta máli að við ákveðum leikreglurnar okkar og spilum eftir þeim og ég held að það sé ekki okkar samfélagi til góðs að ákvarðanir séu að fara í gegn nema fyrir þeim sé almannavilji. Þá skiptir mig engu máli hvort fólk situr í stjórn Samtakanna ’78 eða á Alþingi. Ég trúi alltaf á sættir og skilning.“

50 hafa sagt sig úr Samtökunum vegna málsins.
50 hafa sagt sig úr Samtökunum vegna málsins. AFP

100 inn en 50 út

Þó svo að Margrét sýni vilja til umræðu hefur lítið farið fyrir þeim sem mótfallnir eru aðild BDSM Íslands, á fræðslufundum Samtakanna um efnið sem haldnir voru í aðdraganda kosninganna, að sögn Ásthildar. Segist hún raunar hafa saknað þess að fá sjá ekki þær „nei-raddir“ sem hafa haft sig hvað mest í frammi meira í umræðunni fram að kosningunum.

Eins og áður kom fram hefur Margrét Pála sagt sig úr Samtökunum og samkvæmt upplýsingum frá Auði Magndísi, fyrrnefndri framkvæmdastýru Samtakanna, hafa 49 gert slíkt hið sama frá því hagsmunaaðild BDSM Íslands lá fyrst fyrir. Á móti kemur að áður en málið kom upp höfðu um 50 skráð sig í félagið það sem af var árinu auk þess sem um 50 hafa skráð sig í félagið eftir að málið kom upp. Því hafa samtals um 100 manns skráð sig í félagið frá áramótum en 50 úr. Þær tölur geta enn breyst enda um mikið hitamál að ræða.

Ásthildur segir þó raunar ákveðið ánægjuefni hversu mikinn áhuga fólk hafi sýnt á starfinu síðustu vikur en hún telur að félagafundurinn, þar sem 129 manns greiddu atkvæði, hafi verið sá fjölmennasti um árabil.

„Þó það sé ekki nema það að fólk sem ekki hefur verið að taka virkan þátt í félaginu gæti verið að vakna upp við það að það þurfi að taka þátt til að hafa rödd. Ef virk þátttaka á aðal- og félagsfundum eykst er það frábær fylgifiskur og mun betra en að reyna að skrapa saman 15 manns til að hafa löglegan aðalfund.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert