Mjög góð tíðindi fyrir Ísland

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

„Fyrir það fyrsta er þessi niðurstaða alvarlegasta áfall sem forystusveit Evrópusambandsins hefur orðið fyrir um langa hríð,“ segir Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í samtali við mbl.is um niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi í gær þar sem meirihluti breskra kjósenda greiddi atkvæði með því að segja skilið við Evrópusambandið. Ólafur bendir á að grunnhugmyndin með Evrópusamstarfinu hafi á sínum tíma verið að efla frjáls viðskipti og lýðræði. „Þegar traustasta lýðræðisþjóð Evrópu á 20. öldinni ákveður eftir áratugareynslu af Evrópusambandinu að segja skilið við það samstarf þá er það í raun svo alvarlegur dómur um stefnu sambandsins að það er erfitt að finna nákvæm orð sem lýsa þessum sögulegu þáttaskilum.“

„Það er líka merkilegt að þetta er þriðja þjóðaratkvæðagreiðslan sem forystusveit Evrópusambandsins tapar á örfáum árum. Hinar tvær voru um Icesave-málið hér á landi. Þær snerust um það hvort íslenska þjóðin vildi lúta kröfum Evrópusambandsins um skilmálana í samningum við Breta og Hollendinga sem studdir voru af öllum ríkjum sambandsins. Þegar þær þjóðaratkvæðagreiðslur töpuðust ákvað Evrópusambandið að gerast aðili að málinu fyrir EFTA-dómstólnum. Nú gerist það í þriðja sinn á örfáum árum að þjóð rís upp gegn ráðandi stefnu Evrópusambandsins. Það hlýtur að vera öllum stuðningsmönnum Evrópusambandsins, hvort sem þeir eru hér á Íslandi eða annars staðar, alvarlegt umhugsunarefni að eftir áratugareynslu af sambandinu skuli meirihluti Breta segja nei.“

Öflugur þríhyrningur í Norður-Atlantshafi

Ólafur segir niðurstöðuna í annan stað vera mjög góð tíðindi fyrir Ísland. Fyrir því megi færa mörg rök. „Fyrir það fyrsta þau rök að nú blasir það við að hér á Norður-Atlantshafi verður til þríhyrningur ríkja sem öll standa utan Evrópusambandsins, Grænlands, Íslands, Bretlands, Færeyja og Noregs. Lykilsvæði í norðurhluta heimsins verður nú fyrir utan áhrifasvæði sambandsins og Ísland fær allt í einu öflugari sess í samskiptum bæði við þessi nágrannaríki í okkar heimshluta sem og við ríki Evrópusambandsins. Vegna þess að ríki sambandsins geta ekki verið án góðra samskipta við þennan öfluga þríhyrning ríkja á Norður-Atlantshafi.“

Sömuleiðis renni ákvörðun breskra kjósenda stoðum undir það að þeir samningar sem Ísland og Noregur hafi haft við Evrópusambandið, sem sambandið hafi haft tilhneigingu til að líta á sem eins konar aukaatriði, fái allt í einu nýtt vægi. „Því að Ísland og Noregur verða nú með algerlega nýjum hætti aðilar að því samningaferli sem verður að fara fram á milli Evrópusambandsins og Bretlands og Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins við þennan nýja þríhyrning ríkja við Norður-Atlantshaf. Þannig að vægi okkar í samskiptum við okkar nágranna sem og löndin innan Evrópusambandsins hefur tekið mjög jákvæðum breytingum.“

Mikilvægt fyrir Ísland að meta stöðuna rétt

Þá segist Ólafur vona að niðurstaða þjóðaratkvæðisins í Bretlandi verði til þess „að þeir sem hafa verið að stefna að því að við ættum að hefja nýjar viðræður um aðild að Evrópusambandið átti sig á því að slíkir samningar munu með engum eðlilegum hætti geta farið fram á næstu 10-15 árum þar sem hafið er upplausnarástand í sambandinu sem enginn veit hvaða enda tekur. Þess vegna skapast vonandi breið samstaða hér heima um að meginverkefni okkar á næstu árum sé að styrkja stöðu okkar í þessum nýja Norður-Atlantshafsþríhyrningi utan Evrópusambandsins og síðan stöðu þess þríhyrnings gagnvart ríkjum í sambandinu um leið og við bíðum átekta og sjáum hvort þessi upplausn og ófremdarástand innan þess heldur áfram og hvernig Evrópusambandið muni líta út á næsta áratug.“

Ólafur segist þannig telja að þjóðaratkvæðið í Bretlandi muni styrkja Ísland í samskiptum við aðra hluta heimsins. „Við höfum á undanförnum árum séð aukið mikilvægi norðurslóða. Það eru margvíslegar vísbendingar um það, bæði diplómatískar, viðskiptalegar, vísindalegar og af öðru tagi. Þessi niðurstaða mun beina sjónum heimsins enn meir að því að byggja upp tengsl við hvert og eitt þessara ríkja á norðurslóðum og mun einnig leiða til þess að Bretland mun leita eftir enn nánara og traustara sambandi við þessa nágranna á Norður-Atlantshafi. Hvort Skotland verður á einhverjum tíma sjálfstætt ríki innan eða utan Evrópusambandinu mun ekki breyta miklu í þessu samhengi. En niðurstaðan er þess vegna í mínum huga ótvírætt góð tíðindi fyrir Ísland ef við sem þjóð og okkar ráðamenn meta þessa stöðu rétt og fara ekki að falla í þá gryfju að taka undir þann grátkór yfir þessari lýðræðislegu niðurstöðu sem nú hljómar í ýmsum höfuðstöðvum Evrópusambandsins.“

Sömu dómsdagsspár og í Icesave-málinu

„Það er fróðlegt fyrir hvern og einn að taka fram landakort eða horfa á hnattlíkan og skoða síðan þetta mikla svæði, hið stóra Grænland, Norður-Atlantshafið, Ísland, yfir til Norður-Noregs og enn frekar norður. Og síðan suður til Bretlandseyja. Og skoða síðan í samhengi við viðskipti og vægi í alþjóðasamskiptum hvers konar lykilhlutverki á milli Evrópu og Bandaríkjanna og gegnum norðurslóðir og til Asíu og Evrópu og Bandaríkjanna þetta svæði mun gegna á 21. öldinni. Það þarf ekki nema örstutta skoðun á landakorti eða hnattlíkani til að sjá þvílík gjörbreyting þetta er á okkar næsta nágrenni okkur í hag,“ segir Ólafur ennfremur. Hin upphaflega réttlæting Evrópusambandsins hafi verið sú að í stað stríðsátakanna í Evrópu kæmi hin lýðræðislega Evrópa. Þegar eitt öflugasta ríki sambandsins ákveði að segja skilið við það samstarf með þessum hætti sé það yfirlýsing um að hrikaleg lýðræðisleg brotalöm sé til staðar innan þess.

„Ella myndi það ekki gerast að svo vel upplýst þjóð eins og Bretar eru með allt það upplýsinga- og fjölmiðlakerfi sem er þar við lýði ákveði eftir áratuga reynslu að segja þetta hentar okkur ekki og gerir það í andstöðu við alls konar stofnanir og sérfræðinga og aðra sem spáðu dómsdegi ef Bretar myndu ganga frá borði með nákvæmlega sama hætti og þegar stofnanir og sérfræðingar spáðu dómsdegi yfir Íslandi ef við höfnuðum kröfu Evrópusambandsins í Icesave-málinu. Þarna voru á ferðinni sams konar öfl, sams konar röksemdafærsla, það er sams konar tilvísun til einhvers konar efnahagslegs óumflýjanleik sem fólkið hafnar. Sem íslenska þjóðin hafnaði tvisvar og sem breska þjóðin hafnaði nú. Ef ég væri stjórnandi í Brussel og forystumaður í Evrópusambandinu myndi ég hafa alvarlegar áhyggjur af þessum þríþætta lýðræðislega dómi sem hefur fallið á örfáum árum. Því ef sambandið er ekki um lýðræðislegan vilja fólksins, um hvað á það þá að vera?“

Sterkari tengsl við Kanada og Bandaríkin

Ólafur telur ennfremur að þessi þróun eigi eftir að styrkja stöðu Íslands varðandi samskipti við bæði Kanada og Bandaríkin. „Þegar þarlend stjórnvöld horfast í augu við það að þessi ríkjahópur í Norður-Atlantshafsins, Noregur, Bretland, Ísland, Grænland og Færeyjar, eru öll utan Evrópusambandsins þá verða þau að koma sér upp nýrri sýn, nýrri stefnu og nýjum vinnubrögðum gagnvart þessu svæði. Þannig að við munum bæði fá aukið vægi vegna samningaviðræðnanna sem nú þurfa að fara fram á hinum víðtæka Evrópuvettvangi um það hvað tekur við, við munum fá aukið vægi í samskiptum við Bretland, Noreg og okkar næstu nágranna, við munum fá aukið vægi í samskiptum Kanada og Bandaríkjanna við þessi mikilvægu ríki á Norður-Atlantshafi og við munum líka fá aukið vægi í samskiptum við þjóðir í Asíu og öðrum heimshlutum sem nú munu horfa á þennan ríkjahóp á Norður-Atlantshafi með algerlega nýjum hætti. Þetta er alveg nýr veruleiki sem ég tel tvímælalaust að sé mikið fagnaðarefni þegar horft er til framtíðar.“

mbl.is