Milljónir horft á víkingaklappið

Aron Einar Gunnarsson leiðir klappið á Arnarhóli á mánudag.
Aron Einar Gunnarsson leiðir klappið á Arnarhóli á mánudag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þegar þetta er skrifað hefur verið horft meira en 16 milljón sinnum á myndband Símans af landsliðinu og stuðningsmönnum þess taka víkingaklappið fræga á Arnarhóli á mánudag.

Myndbandið birtist á Facebook-síðu Símans á mánudagskvöld og samkvæmt upplýsingum frá Símanum hefur það náð til tæplega 44 milljóna manna á Facebook, það er fjöldinn sem hefur séð myndbandið á Facebook, hvort sem horft var eða ekki. Af þeim tæpu 44 milljónum sem myndbandið hefur náð til, hafa um 16 og hálf milljón horft á það.

Þá hafa meira en milljón manns „like-að“ myndbandið. Þar af hafa 208 þúsund gert það á Facebook-síðu Símans, en tæplega 900 þúsund hafa „like-að“ deilingar á myndbandinu, sem eru um 275 þúsund.

Athugasemdir við myndbandið á síðu Símans nálgast nú 18 þúsund og koma þær víða að. „Þú skrifaðir ljómandi sögu með sterkum liðsanda þínum. Til hamingju Ísland. Kveðjur frá Aserbaídsjan,“ ritar einn og „Synd þið komust ekki áfram. Elsku Ísland, við viljum sjá ykkur á HM,“ ritar annar á þýsku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert