Gæslan leitar ísbjarna á Vestfjörðum

Frá Látrabjargi á Vestfjörðum.
Frá Látrabjargi á Vestfjörðum. mbl.is/Sigurður Bogi

Þyrla Landhelgisgæslunnar er nú stödd á Ísafirði þar sem fyrirhugað er að fara ásamt lögreglu í leit að ísbjörnum á Vestfjörðum, samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni.

Við athugun á birnunni sem felld var á Skaga aðfaranótt sunnudags kom í ljós að hún var með mjólk í spenum. Bendir það til þess að ekki sé langt síðan húnn eða húnar voru í hennar fylgd.

Samkvæmt heimildum mbl.is er vopnaður maður með áhöfn Gæslunnar í för.

Hlynur Hafberg Snorrason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Ísafirði, segir í samtali við mbl.is að um sé að ræða almennt eftirlit með Hornstrandafriðlandinu.

„Það er verið að huga að mörgu. Við fórum um daginn í svona ferð, förum núna og svo aftur fleiri en eina ferð,“ segir Hlynur og staðfestir um leið að tveir fulltrúar lögreglu séu um borð, auk starfsmanns Fiskistofu.

„Það er enginn ísbjörn á Hornströndum frekar en aðra daga,“ segir Hlynur og bætir við að lögreglan hafi enga tilkynningu fengið um ferðir ísbjarna á svæðinu. „Þetta er bara svona almennt eftirlit.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert