Fer á fullt í stjórnmálabaráttunni

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Styrmir Kári

Við Íslendingar stöndum á miklum tímamótum eins og svo margar aðrar þjóðir. Ákvarðanir sem teknar verða á næstu misserum munu ráða úrslitum um hvernig samfélagið þróast til framtíðar,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, í bréfi sem hann hefur sent flokksmönnum. Þar fer hann yfir þann árangur  sem hann segir ríkisstjórnina hafa náð og boðar endurkomu sína í stjórnmálabaráttuna.

„Þrátt fyrir að mikill árangur hafi náðst stöndum við frammi fyrir stórri, raunverulegri og aðkallandi hættu á að árangrinum verði kastað á glæ. Við því þurfum við að bregðast og það má ekki bíða lengur. Um tíma dró ég mig að miklu leyti út úr hinum pólitíska slag svo að ríkisstjórnin gæti unnið að gríðarlega mikilvægum en ókláruðum verkefnum á meðan mál væru að skýrast,“ segir Sigmundur. Hann hafi að undanförnu ferðast um landið og fundið fyrir miklum stuðningi. Ekki aðeins frá framsóknarmönnum heldur fjölda annarra.

„Slík samtöl nema hundruðum en hvert og eitt er mér verðmætt eftir það sem á undan er gengið. Nokkur hópur fólks, flokksmenn og aðrir, hefur meira að segja tekið að sér að safna saman upplýsingum um atburðarásina til að draga fram staðreyndir. Enn á ég eftir að þakka mörgum þeirra sem lögðu á sig slíka vinnu óumbeðnir. Ég náði að hitta mörg ykkar á fundum víða um land áður en sumarfrí hófust og fljótlega fer ég aftur af stað til að halda fundi með flokksmönnum. Það er margt að ræða,“ segir ráðherrann fyrrverandi ennfremur.

Kosningar í haust háðar því að verkefnum ljúki

Sigmundur beinir síðan orðum sínum að Sjálfstæðisflokknum og segir hluta samstarfsmanna Framsóknarflokksins í röðum sjálfstæðismanna af einhverjum ástæðum áhugasaman um að flýta alþingiskosningum. „Við höfum ætíð haldið því til haga að ef sú ætti að verða raunin þyrfti fyrst að klára þau verkefni sem fyrirheit hafa verið gefin um að leysa á þessu kjörtímabili. Ríkisstjórn sem ekki nýtir tímann sem henni er veittur getur ekki gengið út frá því sem vísu að hún fái tækifæri til að klára verkefnin síðar.“ Aðrir muni ekki klára stefnumál stjórnarinnar.

„Tíminn til að standa við loforðin sem við höfum gefið er því núna. Góður árangur eykur vissulega líkurnar á að við fáum tækifæri til að vinna nýja sigra í þágu almennings að loknum kosningum, en hver sem raunin verður þurfum við að sýna að við höfum verið reiðubúin að klára þau verkefni sem við tókum að okkur að leiða til lykta á fjórum árum. Það verður að vera alveg ljóst að við gerum þá kröfu til samstarfsflokksins að við ætlumst til að ríkisstjórnin klári þau verkefni sem hún lofaði á kjörtímabilinu,“ segir Sigmundur ennfremur.

Sigmundur lýkur síðan bréfinu meðal annars á því að boða fulla þátttöku í stjórnmálabaráttunni á næstunni. „Það mun vekja viðbrögð. Látið það ekki slá ykkur út af laginu. Viðbrögð, jafnvel ofsafengin viðbrögð gegn mér og okkur eru nú sem fyrr til marks um að andstæðingar telji sér að sér standi ógn af okkur.“ Framsóknarmenn hafi staðið við öll gefin loforð þrátt fyrir miklar mótbárur. „Við verðum að halda þeirri vinnu áfram. Skyldur okkar eru við þá sem höfðu trú á okkur og studdu og við samfélagið í heild en ekki við þá sem vilja losna við okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka