„Báknið byggt upp hjá Sjálfstæðisflokknum“

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Forsætisráðherra og þingmenn Vinstri grænna tókust á um breytta skipan ráðuneyta í stjórnarráði Íslands í umræðum um málið á Alþingi í dag. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra sagði að með því að skipta upp innanríkisráðuneytinu í dómsmálaráðuneyti og ráðuneyti samgöngu- og sveitarstjórnarmála væri skerpt á forystu í ákveðnum málaflokkum og skipulag og verklag í ráðuneytunum gert skýrara. Þá væri sterk hefð fyrir að dómsmálin væru í sérstöku ráðuneyti.

Svandís Svavarsdóttir og Steingrímur J. Sigfússon, þingmenn Vinstri grænna, tóku til máls í kjölfarið og gagnrýndu að það vantaði faglegt kostnaðarmat á þessa breytingu og bentu á að aðeins væri talað um að fjölga þyrfti ráðuneytisstjóra um einn og mögulega yrði annar kostnaður sem ætti eftir að koma í ljós.

Tapa sjónum á hinu stærra samhengi

Bjarni svaraði því til að það væri ljóst að þessi breyting myndi kalla á einhvern viðbótarkostnað. Bæði væri það varðandi ráðuneytisstjórann og einhver grunnatriði í rekstri ráðuneytisins. Hann sagði stjórnarandstöðuna aftur á móti gera of mikið af því að einblína á mögulegt rekstrarhagræði með sameiningu ráðuneyta eins og ráðist var í í kjölfar hrunsins, en að hún hafi tapað sjónum á hinu gríðarlega hagfræði í stærra samhengi sem hægt væri að ráðast í. Nefni hann í því samhengi sameiginleg innkaup ríkisstofnana.

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Svandís ítrekaði spurningu sína um kostnað og spurði hvort að áætlaður kostnaður á ári væri 10, 50 eða 100 milljónir en fékk þau svör frá Bjarna að það myndi síðar koma í ljós hvort fjölga þyrfti starfsfólki.

Skemmtilegt að forsætisráðherra tali um aukin ríkisútgjöld

Þegar Steingrímur steig í pontu sagði hann skemmtilegt að heyra forsætisráðherra tala um aukin ríkisútgjöld. „Báknið byggt upp hjá Sjálfstæðisflokknum,“ sagði hann í gamansömum tón og sagði það áhugaverða nálgun hjá flokknum að samþykkja óhagræði á þessum stað en tala fyrir hagræði á öðrum stöðum. Sagði Steingrímur kostnað við nýtt ráðuneyti hlaupa allavega á tugum milljóna og nefndi hann að ráðherra fylgdi ráðherrabílstjóri, ritari ráðherra og aðstoðarmenn. Nefndi hann að búið væri að bæta við þremur ráðherrum frá því að þeim var fækkað eftir hrun og að sér sýndist hver ráðherra nú hafa tvo aðstoðarmenn.

Þetta sagði hann vera nýja stefnu hjá ríkisstjórninni og í andstöðu við það sem stefnt var að eftir hrunið. Þá hafi menn talið að of margar og veikar stofnanir væru hjá ríkinu. Sagði Steingrímur ríkisstjórnina núna vera farna á fullt með þetta aftur á bak með ákvörðun sinni núna.

Segir kostnaðargreininguna óboðlega

Gagnrýndi hann einnig kostnaðargreiningu vegna frumvarpsins og sagði hana óboðlega. Ekki væri um faglega ákvörðun að ræða, heldur pólitíska ákvörðun sem kæmi „ofan frá“ vegna þess að það átti að fjölga ráðherrum. Lagði Steingrímur til að ráðherra fengi frekar aðstoðarráðherra sér við hlið ef verkefnin væru svona stór

Tókust Bjarni og Steingrímur á um nauðsyn þess að hafa ráðuneytin aðskilin, meðal annars út frá því hvort málefni dómsmálaráðuneytisins pössuðu vel innan innanríkisráðuneytisins. Áður höfðu Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata og Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lýst ánægju sinni með að dómsmálin færu í sér ráðuneyti. Steingrímur sagðist ekki vera mótfallinn því að breyta eða fjölga ráðuneytum almennt, en að það þyrfti að framfylgja faglegum vinnubrögðum og spurði hann hvort að þörfin væri virkilega mest í dómsmálunum. Nefndi hann að hann gæti meðal annars að koma mætti upp tímabundnu ráðuneyti ferðamála. Það væri málaflokkur í mikilli umbreytingu og vexti og með góðum ráðherra færu ekki „fleiri glötuð ár í vaskinn.“

Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri-grænna.
Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri-grænna. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert