15 óhæfir til aksturs

Það er gáfulegra að taka strætó heldur en að keyra …
Það er gáfulegra að taka strætó heldur en að keyra ef áfengis hefur verið neytt. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Það sem af er degi hafa fimmtán ökumenn reynst óhæfir til aksturs á Suðurlandsvegi en alls hafa 26 ökumenn verið stöðvaðir vegna ölvunaraksturs í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi um helgina, segir Einar Magnús Magnússon, sérfræðingur í öryggis- og fræðsludeild Samgöngustofu.

Mikil umferð er vestur um Suðurlandsveg og stöðva lögreglumenn alla ökumenn sem eru á leið frá Landeyjahöfn og athuga hvort þeir séu undir áhrifum vímuefna og eins áfengis. Það sem af er degi teljast 15 einstaklingar óhæfir til aksturs eftir slíka athugun en alls eru 26 tilfelli ölvunaraksturs í umdæmi lögreglunnar á Selfossi frá því á föstudagskvöld, segir Einar Magnús.

Sambærilegar athuganir eru gerðar víðar um land og er ökumönnum bannað að aka þótt magn áfengis sé ekki yfir refsimörkum. Ef lögregla mælir áfengi í öndunarprófi ökumanns hefur hún heimild til að banna viðkomandi að halda áfram akstri, í tiltekinn tíma, þótt magn áfengis mælist undir refsimörkum.

Einar Magnús minnir á að notkun farsíma meðan á akstri stendur er mjög hættuleg. Farsímanotkun er orðin algeng orsök slysa í umferðinni – sérstaklega meðal ungra ökumanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert